Skip to content
Nov 21 13

Farartæki Batmans og Spidermans

by Ásta Egilsdottir

Nokkuð er liðið frá því ég birti myndir af ömmustrákunum mínum í kubbaleik. Áhugi þeirra á einingakubbunum hefur gengið í bylgjum ef svo má segja. Stundum líta þeir ekki við þeim þegar þeir koma í heimsókn en byggja þess í stað úr lego-kubbum. En svo koma dagar þar sem einingakubbarnir eiga hug þeirra allan og þannig var staðan um síðustu helgi.

Fyrstu byggingarnar voru endurtekningar frá fyrri byggingastundum. Jóel Orri byggði kastala en Veigar Lár hélt áfram tilraunum sínum með bíla.

Farartækin hans Veigars Lárs tóku á sig ýmsar myndir og var gaman að fylgjast með hversu vel hann hefur náð samhverfunni í byggingum sínum.

Stóri bróðir tók svo fljótlega þátt í bílaframleiðslunni og í einni tilrauninni varð þessi til.

Fleiri farartæki litu dagsins ljós og í ýmsum myndum. Þegar þessi farartæku urðu til komu þeir Batman og Spiderman inn í myndina. Þetta voru þeirra bílar eða geimskip … óljóst hvort var.

Þá stökk amma til, náði í pappír, tússpenna, skæri og “málaratape”, alsæl með tækifærið sem loks birtist til að koma hlutverkaleiknum að. Hafði gert eina tilraun áður en hún gekk ekki upp. Jóel Orri teiknaði Batman og tvo aðstoðarmenn en Veigar Lár teiknaði Spiderman, tré og tvær óskilgreindar persónur. Þegar búið var að klippa kappana út og líma þá á kubba upphófst bæði mikill leikur með þá og ný farartæki litu dagsins ljós. Látum myndirnar tala sínu máli.

Og þarna er hefur Jóel Orri litað hann Batman sinn.

Og svo ein í lokin frá Veigari Lár :)

Og svo verður spennandi að fylgjast með hvað gerist í næstu heimsókn bræðranna á Skagann. Munu þeir velja einingakubbana og bæta í hlutverkaleikinn eða munu lego-kubbarnir eða eitthvað annað eiga hug þeirra? Kemur í ljós en amma bíður spennt!

Aug 5 12

Að byggja eftir fyrirmynd

by Ásta Egilsdottir

Í vetur vorum við stöllur sem kenndum í 1.bekk í Grundaskóla með stærðfræðistöðvar þar sem við unnum með tölur og talnaskilning, reikniaðgerðir, mælingar og mynstur. Í mynsturvinnunni léku einingakubbarnir stórt þar sem börnin fóru í speglunarleikinn, bak í bak og að byggja eftir fyrirmynd. Síðast nefnda verkefnið fólst í því að byggja eftir ljósmyndum af byggingum og mynsturlengjum sem ég hafði gert úr mini-einingakubbunum og teikna síðan á rúðustrikað blað. Börnin unnu saman í pörum en paravinnan gefur mikið af sér í verkefnum sem þessum því þar er stefnt að sameiginlegri niðurstöðu og verða börnin því að ræða saman um kubbana og eiginleika þeirra til að ná árangri.

1. Hér byggja börnin eftir mynstri sem er endurtekið tvisvar á myndinni en þau áttu að halda áfram með það og  leggja a.m.k. þrjár endurtekningar til viðbótar. Að því loknu áttu þau að teikna mynstrið í reikningsbókina sína. Þar áttu þau að miða við að ferningslaga kubburinn tæki fjögur hólf (2×2) þegar hann lægi flatur og finna svo hlutföll hinna kubbanna út frá því.

2. Hér byggja börnin eftir myndum af mismunandi „turnum“ og þurfa að átta sig á kubbunum sem ekki sjást á fyrirmyndinni.

3. Í þessu verkefni áttu börnin að byggja kassalaga byggingu. Á einni fyrirmyndinni sást bara ein hlið sem herma átti eftir en þau máttu ráða útliti hinna þriggja. Á annarri fyrirmynd sáust tvær hliðar og á þeirri þriðju sást ofan í kassann. Þetta verkefni reyndist börnunum erfiðast meðan þau nánast léku sér að hinum.

4. Lagði einnig fyrir börnin verkefni sem ég lagði fyrir fjögra og fimm ára börn í leikskóla þegar ég var í KHÍ hér um árið. Það fólst í því að byggja eftir teikningu af kubbabyggingu og er skemmst frá því að segja að þau rúlluðu því upp! Alltof létt verkefni fyrir þessar elskur en örugglega hægt að þyngja það! Gaf mér bara ekki tíma til þess að þessu sinni.

Aug 4 12

Veigar Lár brunar áfram!

by Ásta Egilsdottir

Sá stutti heillaði ömmu síma upp úr skónum í gær þegar hann sýndi nýja takta í kubbavinnunni. Hann byrjaði á því að brúa bilið sem hann hefur ekki gert áður hjá ömmu. Hann hefur hins vegar farið þessa leið í vinnu með kaplakubbana sem hann á heima hjá sér og yfirfærir hana nú á einingakubbana.

Þegar hann hafði lagt fjórar raðir tók hann til við að „skreyta“ bygginguna og lagði sams konar kubba á tvær gagnstæðar hliðar hennar og tvo mismunandi á miðju þeirrar þriðju.

Í næstu byggingarlotu tók hann annað nýtt skref en þá afmarkaði hann svæði. Fyrst birtist þessi rammi hjá honum þar sem hann leggur hann kubbana upp á rönd og lætur nægja að afmarka svæðið.

Í næstu lotu lagði hann kubbana flata og líklega yfirfærir hann þarna á einingakubbana byggingamynstur sem hann hefur verið iðinn við að byggja úr lego-kubbum (duplo) heima fyrir. Þar þekur hann stóra plötu með nokkrum lögum af kubbum og segist vera að búa til köku!

Hérna byrjar hann á því að afmarka svæðið og fyllir síðan upp í það og þekur svæðið. Hann var mjög ákveðinn í því að nota einungis þessar tvær stærðir af kubbum í bygginguna. Eins fékk hann örlitla aðstoð frá ömmu við að laga rammann til því litlar hendur eru enn svolítið óstýrilátar og unginn að því kominn að gefast upp á að koma reglu á hlutina. En þegar ramminn var kominn í viðunandi horf upphófst þökunin sem Veigar Lár sá alfarið um einn og óstuddur!

Jul 26 12

Jóel Orri byggir eftir fyrirmynd

by Ásta Egilsdottir

Jóel Orri prufaði eitt af þeim verkefnum sem amma var með í skólanum en það var að byggja eftir fyrirmynd. Honum tókst vel upp og var amma sérstaklega ánægð þegar hann áttaði sig á kubbunum sem voru bak við og sáust ekki svo auðveldlega á fyrirmyndinni.

Jul 25 12

Afi og Jóel Orri í speglunarleik

by Ásta Egilsdottir

Amma mátti til með að athuga hvort fjögra ára ömmuguttinn hennar réði við speglunarleikinn. Afi var settur á örnámskeið í leiknum og síðan tóku þeir til við leikinn. Skemmst er frá því að segja að sá stutti var fljótur að ná tökum á leiknum og sýndi þar með fram á að leikurinn hentar vel elstu börnunum í leikskólanum.

Jul 25 12

Kubbameistari Jóel Orri

by Ásta Egilsdottir

Byggingar Jóels Orra hafa þróast jafn og þétt fram til þessa. Glíman við brúna hófst á haustdögum 2011 og afmörkun svæðis kom fljótlega eftir það.

Amma þykist hafa séð glitta í samhverfuna í byggingum Jóels Orra ansi snemma en sennilega eru það draumórar. Líklegra er að þar hafi hreyfingin ráðið ríkjum, þ.e. hann setur „…kubb hægra megin, síðan vinstra megin eða kubb fyrir framan byggingu, síðan fyrir aftan hana.“ (sjá Johnson 1984:18 í The Block Book 3.útg.1996). Í þessu ferli hef ég fylgst með honum leggja kubba hægra með hægri hönd og vinstra megin með vinstri hönd þó svo hægri höndn sé ráðandi.

En hvað sem því líður þá er samhverfan komin og virðist Jóel Orri á góðri leið með að ná tökum á stöðugleikanum í byggingum sínum eftir að hafa staflað kubbum og byggt frekar óreglulega framan af. Hann leitar orðið að ákveðnum kubbum til að nota í byggingar og virðist meðvitaðri um hvað gengur upp og hvað ekki í samsetningu kubbanna til að skapa stöðugleika.

Þarna má sjá byggingarmynstrin, þ.e. brúna (x3) , afmarkað svæði og samhverfu sameinast í einni og sömu byggingunni.

Eftir eina kubbastundina nú í júní birtist þessi bygging hjá Jóel Orra. Þetta er húsið sem mamman, pabbinn og barnið þeirra búa í og á hvert þeirra sitt svæði í húsinu.

Hann endurtók þetta þema síðar en þá eru svæðin afmarkaðri.

Seinna kom svo þessi mannvera og þar útskýrði hann hvern kubb sem hann lagði. Efstu kubbarnir eru hárið svo koma augun (sívalningarnir) og svo koll af kolli uns tærnar sem koma síðast. Amman er sem sagt á því að drengurinn gæli við 6. stigið en lætur sér nægja að fullyrða að hann hafi náð 5. stigi.

Jul 25 12

Nýtt af Veigari Lár

by Ásta Egilsdottir

Veigar Lár hefur haldið sig við turnbyggingar þar til í júní s.l. en þá komu ný mynstur fram. Þarna sá ég hann í fyrsta sinn raða kubbunum lárétt hlið við hlið. Hann raðaði þeim fyrst í einfalda röð og svo þakti hann svæði í lokin.

Í næstu heimsókn í byjun júlí endurtók hann leikinn, þ.e. hann lagði fyrst einfalda lengju sem hann bætti svo við. Amman beið svolítið spennt eftir að sjá hvernig hann færi að þegar lengjan var komin að kistunni og plássið lítið. Hann lagði kubbinn upp á rönd því þannig passaði hann fullkomlega í plássið!  Hann stytti síðan lengjuna og lagði kubba bæði meðfram henni og ofan á.

Þennan myndarlega vegg hlóð Veigar Lár svo nú um miðjan júlí. Hann staflar kubbunum óreglulega og tekur áhættur líkt og í turnbyggingunum.

Nov 6 11

Ýmis kubbaverkefni

by Ásta Egilsdottir

Einingakubbana má nýta til að vinna ýmis styttri verkefni þar sem börnin takast á við eiginleika kubbanna.

Leikurinn Bak í bak hefur þótt skemmtilegur en þar vinna börnin í pörum. Þau veljar sér tíu samskonar kubba hvort barn, snúa bökum saman og byggja úr þessum tíu kubbum – og mega alls ekki kíkja! Þegar bæði börnin hafa lokið við að byggja bera þau byggingar saman og greina hvað er líkt og ólíkt með þeim. Það er sama hve oft þau endurtaka leikinn, byggingarnar verða aldrei eins!

Speglunarleikurinn hefur einnig gefist vel. Þar vinna börnin í pörum sitt hvoru megin við spegilás. Annað barnið leggur kubb, hitt speglar samskonar kubb og bætir nýjum við. Það fyrra speglar þann kubb og bætir nýjum við o.s.frv. Þegar börnin hafa lagt nokkra kubba má þyngja leikinn með því að það barn sem á að herma eða spegla má ekki sjá hvar nýji kubburinn lendir … Það verður að fara yfir mynstrið og finna það út sjálft. Í lokin má svo teikna listaverkið sem myndast hefur.

Fleiri verkefni má nefna eins og að þekja mismunandi fleti og að teikna byggingu frá mismunandi sjónarhornum á rúðustrikað blað.

Nov 6 11

Tími og vinnufriður mikilvægur í kubbastarfinu.

by Ásta Egilsdottir

Hinir stærðfræðilegu eiginleikar einingakubbanna efla skilning barna á stærðfræðihugtökum. Þau læra að greina á milli þessara eiginleika og að lýsa þeim – fyrst á eigin forsendum en rétt orð og tákn sem lýsa hugtökunum koma seinna á námsleiðinni og þá þarf einungis að færa þeim orðin og táknin til að koma á framfæri hugmyndum sem þau hafa þegar öðlast skilning á í tilraunum sínum.

Í kubbastarfi læra börn að beita skipulögðum vinnubrögðum þar sem þau rannsaka, bera saman og flokka, draga ályktanir, setja fram tillögur og túlka og rökstyðja niðurstöður í byggingum sínum. Þau vinna með þætti eins og þyngdaraft, stöðugleika, jafnvægi og innbyrðis tengsl kubbanna þar sem þau átta sig á því hvað gengur upp og hvað ekki til að geta skapað úr þeim samstæða heild.

En til að vel til takist á þessu sviði er mikilvægt að gefa börnum nægan tíma og frið til að sinna kubbastarfinu.

Nov 5 11

Tilraunir halda áfram

by Ásta Egilsdottir

Tilraunir með kubbana héldu áfram þegar Jóel Orri og Veigar Lár heimsóttu afa og ömmu fyrir stuttu.