Skip to content

Veigar Lár brunar áfram!

by Ásta Egilsdottir on August 4th, 2012

Sá stutti heillaði ömmu síma upp úr skónum í gær þegar hann sýndi nýja takta í kubbavinnunni. Hann byrjaði á því að brúa bilið sem hann hefur ekki gert áður hjá ömmu. Hann hefur hins vegar farið þessa leið í vinnu með kaplakubbana sem hann á heima hjá sér og yfirfærir hana nú á einingakubbana.

Þegar hann hafði lagt fjórar raðir tók hann til við að „skreyta“ bygginguna og lagði sams konar kubba á tvær gagnstæðar hliðar hennar og tvo mismunandi á miðju þeirrar þriðju.

Í næstu byggingarlotu tók hann annað nýtt skref en þá afmarkaði hann svæði. Fyrst birtist þessi rammi hjá honum þar sem hann leggur hann kubbana upp á rönd og lætur nægja að afmarka svæðið.

Í næstu lotu lagði hann kubbana flata og líklega yfirfærir hann þarna á einingakubbana byggingamynstur sem hann hefur verið iðinn við að byggja úr lego-kubbum (duplo) heima fyrir. Þar þekur hann stóra plötu með nokkrum lögum af kubbum og segist vera að búa til köku!

Hérna byrjar hann á því að afmarka svæðið og fyllir síðan upp í það og þekur svæðið. Hann var mjög ákveðinn í því að nota einungis þessar tvær stærðir af kubbum í bygginguna. Eins fékk hann örlitla aðstoð frá ömmu við að laga rammann til því litlar hendur eru enn svolítið óstýrilátar og unginn að því kominn að gefast upp á að koma reglu á hlutina. En þegar ramminn var kominn í viðunandi horf upphófst þökunin sem Veigar Lár sá alfarið um einn og óstuddur!

From → Almennt

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS