Skip to content

Að byggja eftir fyrirmynd

by Ásta Egilsdottir on August 5th, 2012

Í vetur vorum við stöllur sem kenndum í 1.bekk í Grundaskóla með stærðfræðistöðvar þar sem við unnum með tölur og talnaskilning, reikniaðgerðir, mælingar og mynstur. Í mynsturvinnunni léku einingakubbarnir stórt þar sem börnin fóru í speglunarleikinn, bak í bak og að byggja eftir fyrirmynd. Síðast nefnda verkefnið fólst í því að byggja eftir ljósmyndum af byggingum og mynsturlengjum sem ég hafði gert úr mini-einingakubbunum og teikna síðan á rúðustrikað blað. Börnin unnu saman í pörum en paravinnan gefur mikið af sér í verkefnum sem þessum því þar er stefnt að sameiginlegri niðurstöðu og verða börnin því að ræða saman um kubbana og eiginleika þeirra til að ná árangri.

1. Hér byggja börnin eftir mynstri sem er endurtekið tvisvar á myndinni en þau áttu að halda áfram með það og  leggja a.m.k. þrjár endurtekningar til viðbótar. Að því loknu áttu þau að teikna mynstrið í reikningsbókina sína. Þar áttu þau að miða við að ferningslaga kubburinn tæki fjögur hólf (2×2) þegar hann lægi flatur og finna svo hlutföll hinna kubbanna út frá því.

2. Hér byggja börnin eftir myndum af mismunandi „turnum“ og þurfa að átta sig á kubbunum sem ekki sjást á fyrirmyndinni.

3. Í þessu verkefni áttu börnin að byggja kassalaga byggingu. Á einni fyrirmyndinni sást bara ein hlið sem herma átti eftir en þau máttu ráða útliti hinna þriggja. Á annarri fyrirmynd sáust tvær hliðar og á þeirri þriðju sást ofan í kassann. Þetta verkefni reyndist börnunum erfiðast meðan þau nánast léku sér að hinum.

4. Lagði einnig fyrir börnin verkefni sem ég lagði fyrir fjögra og fimm ára börn í leikskóla þegar ég var í KHÍ hér um árið. Það fólst í því að byggja eftir teikningu af kubbabyggingu og er skemmst frá því að segja að þau rúlluðu því upp! Alltof létt verkefni fyrir þessar elskur en örugglega hægt að þyngja það! Gaf mér bara ekki tíma til þess að þessu sinni.

From → Almennt

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS