Skip to content

Caroline Pratt

Caroline PrattLife in school is only another setting for life anywhere.  If we were preparing our children to live under an autocratic regime I could understand the need for iron discipline, for suppression of playfulness and friendliness, of adventure or individualism wherever it raises its head.  But we are preparing our children to be responsible citizens in a democracy, perhaps some day in a democratic world. – Caroline Pratt

Caroline Pratt (1867-1954) var frá Fayettville í New York fylki í Bandaríkjunum. Þar sem hún var ætíð talin hafa gott lag á börnum lá það fyrir henni að gerast kennari aðeins 16 ára gömul (Pratt 1948). Hún hóf kennslustörf í litlum sveitaskóla nálægt heimabyggð sinni með litla reynslu af hefðbundnum skóla en þá trú að löngunin til að læra væri börnum jafn eðlileg og óhjákvæmileg og löngun ungbarna til að ganga. Sjálf var hún alin upp í umhverfi þar sem skóli var ekki forgangsatriði heldur hið raunverulega nám sem átti sér stað með þátttöku í daglegu starfi.

City and Country School

Caroline Pratt stofnaði City and Country School í New York árið 1914. Skólinn hefur frá fyrstu tíð starfað undir merkjum framsækinnar skólastefnu en Pratt var á sínum tíma einn af ötulustu talsmönnum þeirrar stefnu. Pratt leit svo á að æðsta takmark hvers skóla ætti að vera það að skila af sér einstaklingum virkum í hugsun og gjörðum, einstaklingum sem gætu breytt þjóðfélaginu til hins betra.

Pratt vildi færa börnum heim skóla þar sem þau hefðu tækifæri til að endurskapa umhverfi sitt og uppgötva á sinn hátt leyndardóma hins félagslega og efnislega heims ásamt því að fá innsýn inn í ólíka heima fólks sem þarf að læra að lifa saman í sátt og samlyndi. Til þess þyrftu börnin aðgang að námsefni sem þau gætu notað án leiðsagnar eða stjórnunar, efnivið sem lagaði sig að þörfum þeirra og þau gætu sett mark sitt á.

Með ofangreint að leiðarljósi hannaði Pratt kubbasafnið sitt sem var og er enn þann dag í dag meginefniviður í námi og kennslu yngri barna í City and Country School þar sem þau vinna með nánasta umhverfi sitt í gegnum leik. Þannig er samfélagsfræðin útgangspunkturinn en aðrar námsgreinar fléttast inn í vinnu barnanna eftir því sem leikurinn og athuganir þeirra á umhverfinu leiða þau.

Ljósmyndina af kubbabyggingunum tók ÁE í City and Country School Dekkstu kubbarnir eru frá upphafsárum skólans og enn í fullri notkun. Ljósmyndin af Pratt er tekin af vef skólans.

Teacher Collage

Árið 1892 hóf Pratt nám í Teachers Collage í New York og lagði fyrst fyrir sig kennslu yngri barna (kindergarten) en snéri sér seinna að hannyrðum. Ástæðan var sú að henni líkaði ekki þær kennslufræðilegu hugmyndir sem álitið var að ættu best við í kennslu yngri barna. Þær gengu aðallega út á aðferðir sem ætlað var að búa börnin undir „…the long years of dicipline ahead.“ (Pratt 1948:11).

Að loknu tveggja ára kennaranámi hóf hún kennslustörf en þar sem henni féllu aldrei hinar hefðbundnu kennsluaðferðir þessa tíma né þær námskrár sem henni var ætlað að kenna eftir leitaði hún stöðugt leiða til að gera námið þess vert að stunda það.

Sloyd School í Svíþjóð

Pratt taldi það ekki vænlega leið til árangurs að læra færnisþætti eftir fyrirfram ákveðinni röð áður en hægt væri að hagnýta þá færni. Leiðin var of langsótt til að halda athygli og áhuga nemenda vakandi. Hún leitaði því sem fyrr segir stöðugt leiða til að gera nám nemenda sinna merkingarbært og áhugavert. Í þeim tilgangi sótti hún sumarnámskeið í Sloyd School í Svíþjóð en gott orð hafði farið af því námskeiði meðal annars vegna þeirrar hagnýtingar sem það boðaði.

En hún hafði ekki erindi sem erfiði og fannst námskeiðið ekki skila því sem hún hafði vænst. Leit hennar hélt því áfram og eitt af því sem hún gerði í sinni kennslu var að sýna fram á að það hefði ekkert gildi í sjálfu sér að læra handbragð samkvæmt fyrirfram ákveðinni röð þyngdarstiga. Fullkomið handbragð var ekki það sem hún leitaði eftir heldur ferlið við að skapa hlutina. Færnin batnaði eftir því sem nemendur sjálfir gerðu meiri kröfur til sín. Hún vildi hins vegar sjá þá skipuleggja vinnu sína, ígrunda, spyrja spurninga og framkvæma sjálfa á þann hátt sem þeir voru færir um. Í námi fælist ekki eingöngu það að framkvæma heldur þyrfti hugsun og skipulagning að koma þar til.

Fyrstu áhrifavaldar

Á þessum árum var farið að gera kröfur um að tekið yrði aukið tillit til þarfa nemenda og samfélagsins í námskrám skóla en sterk öfl börðust á móti því og vörðu hefðina. Þessar hræringar fóru ekki fram hjá Pratt og ákveðin tímamót urðu í lífi hennar þegar hún kynntist konu að nafni Helen Marot. Marot hafði sett á laggirnar lítið bókasafn sem lagði áherslu á frjálslynda hugmyndafræði og laðaði að sér fólk með róttækar skoðanir. Sá heimur sem Pratt kynntist þarna veitti henni nýja sýn á menntun. Hún sá hana nú sem lífstíðar fyrirbæri og að það væri hlutverk skólanna að búa nemendur undir þá ævilöngu menntun sem biði þeirra að loknu skólanámi.

„A schools’s function could become that of developing in children the kind of thinking and working attitudes which would enable them to take over their own future growth. Looked at this way, education became to me a new and living thing!“  (Pratt 1948:14)

Þarna gætti eflaust áhrifa frá Mariettu Johnsons stofnanda The Organic School of Education (1907) og Pratt getur um í bók sinni I learn from Children. Johnson tilheyrði hópi framfarasinna en skólinn hennar byggði á þeirri hugmyndafræði að menntun væri ekki undirbúningur fyrir lífið heldur lífið sjálft.

Pratt drakk einnig í sig hugmyndafræði John Dewey sem hún kynnstist síðar í tengslum við starfsemi City and Country School en hugmyndir hans endurspegluðust vel í starfi skólans. Pratt leit svo á að æðsta takmark hvers skóla ætti að vera það að skila af sér einstaklingum virkum í hugsun og gjörðum, einstaklingum sem gætu breytt þjóðfélaginu til hins betra. Hana dreymdi um skóla þar sem nemendur hefðu tækifæri til að endurskapa umhverfi sitt og uppgötva á sinn hátt leyndardóma hins félagslega og efnislega heims ásamt því að fá innsýn inn í ólíka heima fólks sem þarf að læra að lifa saman í sátt og samlyndi. Í augum hins hefðbundna kennara var það algert brjálæði að sleppa nemendum lausum á þennan hátt. En í hennar augum var það glæpsamlegt að tjóðra þá við skólaborð.

Um námshvötina og frjálsan leik

Í formála að bók sinni I Learn from Children (1948) ræðir Pratt um þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem urðu með tilkomu iðnaðarsamfélagsins og stórborgarlífsins og áhrifin sem breytingarnar höfðu á líf nemenda. Hún segist hafa horft á heim þeirra dragast stöðugt saman, verða minni og afmarkaðri og sveipaður leyndardómum flókinnar tækni. Hún sá hann fara frá hinu frjálsa og fræðandi sveitasamfélagi til veraldar sem er svo langt frá skilningi nemenda að það var eingöngu á færi skólanna að kynna þeim þessa veröld og undirbúið þá fyrir lífið framundan.

En skólarnir stóðu ekki rétt að verki að mati Pratt og taldi hún að flestir nemendur glötuðu námslöngun sinni strax í barnæsku. Bæði væru hinar hefðbundnu kennsluaðferðir gagnslausar og sú þekking sem haldið væri að nemendum úr tengslum við raunveruleikann, eitthvað sem þeir hefðu ekki áhuga á. Námshvötin væri kæfð með of miklum kröfum um bóklegt nám og þar með væri bæði kröftum og tíma nemenda eytt til einskis því ekki væri tekið mið af þörfum þeirra.

Pratt leit svo á að nemendur yrðu að fá reyna fyrir sér á virkan hátt á sínum eigin forsendum í stað þess að vera óvirkir móttakendur. Tók hún þar mið af hinni sterku námshvöt sem liggur að baki tilraunum ungbarna (trial and error) þegar þau eru að komast á kreik, læra að tala og ráðskast með hluti í umhverfi sínu. Einu hindranirnar sem ungbörnin verða fyrir eru þeirra eigin takmarkanir og þær sem umhverfið setur þeim. Hins vegar gerist eitthvað sem verður til þess að letja þessa miklu hvöt.

„They lost it, in fact, long befor they were grown. They lost it while they were still little children, while they were still spending their days in the place of learning, the school – perhaps that was were they lost it!“    (Pratt 1948:5)

Pratt einsetti sér að finna orsökina fyrir því að nemendur glötuðu námshvöt sinni og vildi vinna á móti þeim öflum sem voru þar að verki. Hún taldi ekkert standast þann kraft sem námshvötin gæfi af sér væri hægt að halda henni lifandi frá barnæsku til fullorðinsára. Hún gæfi námsárunum merkingu og stuðlaði að þekkingu sem nemendur hefðu með sér í farteskinu út í lífið og yrði hluti af þeim.

Námhvötin og hinn frjálsi leikur

Þessi leit hennar færði hana sífellt nær yngstu nemendunum en hún sannfærðist um að þar væri mikilvægast að byrja því þar væri grunurinn lagður. Hún sá þörf nemenda fyrir hinn frjálsa leik og gerði sér grein fyrir þeirri námshvöt sem honum fylgdi. Hún hélt því fram að um leið og lokað væri á leikinn í lífi nemenda væri fyrsta skrefið tekið í þá átt að eyða tíma þeirra til einskis. Í leik sínum gera þeir ýmsar tilraunir og skapa tengsl á milli eigin hugsana og raunveruleikans og vinna þannig úr reynslu sem þeir hljóta af samskiptum sínum við umhverfið.

Einnig taldi Pratt að tíma nemenda væri eytt til einskis þegar lokað væri á þörf þeirra fyrir beina upplifun, fyrir að sjá og snerta. Hún áleit að skólinn yrði að laga sig að þörfum nemenda á þessu sviði í stað þess að reyna stöðugt að laga þá að skólanum líkt og gerðist í hinum hefðbundna skóla þar sem kennd voru sundurlaus þekkingaratriði án alls samhengis og úr tengslum við raunveruleikann.

En þannig var hefðin og þannig var henni ætlað að kenna samkvæmt þeirri menntun sem hún hafði hlotið í Teachers Collage. Henni hraus hins vegar hugur við því að viðhalda þeirri hugmyndafræði að nám byggðist á endurteknum þjálfunaræfingum en hagnýting þess væri víðs fjarri. Nemendur hennar yrðu hugsanlega kennarar framtíðarinnar og fetuðu í fótspor hennar í kennsluháttum. Það fannst henni í hæsta máta ósanngjarnt gagnvart þeim og væntanlegum nemendum þeirra. Námið varð að hafa tilgang, nemendur yrðu að fá að skapa hluti sem hefðu hagnýta og persónulega merkingu fyrir þá, hversu einfaldir sem hlutirnir væru.

Do-Withs

Um tíma hætti Pratt kennslu og lagði út í framleiðslu leikfanga sem voru til þess ætluð að falla vel að hlutverkaleik barna. Hugmyndina að þeim fékk hún við að fylgjast með sex ára dreng leika sér í járnbrautaleik heima hjá sér en hann notaði kubba, pappakassa og annan efnivið sem til féll við að skapa umgjörð fyrir leikinn.

Hún heillaðist af leik drengsins og hvernig hann fór að því að endurskapa þá veröld sem hann lifði í og byggði á reynslu sinni af henni. Í leik sínum skrifaði drengurinn hinn fullkomna texta við sitt hæfi um það sem hann hafði upplifað, hann skráði skilning sinn á því hvernig hlutirnir virkuðu, innbyrðis tengsl staðreynda, orsök og afleiðingu, tilgang og hlutverk.

Þetta var hugsun, þetta var nám að mati Pratt. Það eina sem henni fannst skorta í leikinn voru leikfélagarnir en þarna sá hún fyrir sér möguleika á að skapa efnivið og aðferð sem mætti nýta við kennslu ungra barna, kennslu sem byggðist á leik og starfi barnanna sjálfra. En leikföng hennar, sem hún nefndi „Do-Withs“, náðu ekki útbreiðslu á þessum tíma og varð því ekkert úr frekari framleiðslu en Pratt lærði hins vegar þá lexíu að nýjungar þurfa sinn tíma til að ná fótfestu.

Fyrsti skólinn

Pratt hóf tilraun með skólahald árið 1913 þar sem einingakubbarnir voru meginefniviðurinn ásamt leikföngunum Do-Withs og öðrum efniviði á borð við liti, pappír og leir. Í Teacher Collage kynntist Pratt kubbum sem forstöðukona leikskóladeildarinnar (Kindergarten), Patty Hill, hafði hannað. Hún sá að þar fór efniviður sem féll vel að hugmyndum hennar um námsþarfir barna, þ.e. efniviður sem börnin gætu notað án leiðsagnar eða stjórnunar, efniviður sem lagaði sig að þörfum þeirra og þau gætu sett mark sitt á. Með þetta í huga hannaði hún sitt eigið kubbasafn sem var minna í sniðum en Hill-kubbarnir og frábrugðnir að því leyti að leikurinn með þá krafðist táknbundinnar framsetningar á hlutverkunum en í leik með Hill-kubbana léku börn sér í byggingum sem þau byggðu og gengu þar beint inn í hlutverkin í leiknum.
Einingakubbarnir náðu strax athygli nemenda sem frjálsir og óheftir byggðu í sameiningu sitt eigið samfélag sem endurspeglaði reynslu þeirra af umhverfinu. Í fyrsta sinn sem Pratt fékk tækifæri til að fylgjast með nemendum að störfum með einingakubbana sannfærðist hún um að hún hafði rétt fyrir sér um gildi leiksins í námi.

Vettvangsferðir

Vettvangsferðir og umræður um reynslu nemenda af þeim urðu smám saman stór þáttur í skólastarfinu. Pratt hélt því fram að efniviðurinn einn og sér segði ekki allt því það væri reynsluheimur nemenda sem réði því hvað úr honum yrði. Þeir yrðu að fá tækifæri til að rannsaka umhverfi sitt nánar og afla sér frekari upplýsinga til að varpa skýrari ljósi á fyrri þekkingu. Hvatinn að leiknum yrði að verða til á þeirra forsendum, með beinni upplifun og með spurningum sem þeir sjálfir settu fram og leituðu svara við sinn merkingarbæra hátt en hvatning og aðstoð hinna fullorðnu gæti hjálpað þeim áfram. Á þann hátt taldi Pratt að auðga mætti það nám sem fólst í leiknum

Á réttri leið

Reynsla Pratt af þessari fyrstu tilraun með rekstur eigin skóla sannfærði hana um að hún væri á réttri leið. Tilraunin sýndi að hennar mati að leikur væri nám og að hinn frjálsi, sjálfsprottni leikur væri einum of dýrmætur til að hægt væri að ganga fram hjá honum eins og hefðbundnu skólarnir gerðu almennt. Nemendur kenndu henni einnig að þeir læra fyrr að vinna saman í sátt og samlyndi ef þeir eru lausir við afskipti hinna fullorðnu. Þeir lutu ekki þeim aga sem skólakerfið og heimilin settu þeim heldur fengu þeir frelsi til að vinna og takast á þar sem þeir urðu að leysa ágreiningsefni.

Efri myndin er tekin í Grundaskóla en sú neðri í City and Country School

Bein upplifun

Eins skýrðist það fyrir henni að sú þekking sem fæst með einstefnumiðlun, hinni hefðbundnu nálgun þess tíma, gerir nemendum ekkert gagn. Hún sagði unga nemendur enn skorta málskilning til að tileinka sér þekkingu sem þannig væri á borð borin og næðu því ekki að tengja hina nýju visku við þá þekkingu sem fyrir er. Þess vegna taldi Pratt það grundvallaratriði að nemendur upplifðu beint það sem þeir þurftu að vita og fengju tækifæri til að vinna úr því í leik sínum. Þar æfðu þeir hugsun sína og nýttu þekkingu sína. Nemendur vissu nákvæmlega hvað þeir væru að gera í leik sínum þó svo hinn fullorðni væri ráðvilltur og sæi ekki tilgang hans. Þeir ættu auðveldar með að sýna í gegnum leikinn hvernig hlutirnir gerast heldur en að útskýra það með orðum því athöfnin væri þeirra miðill, orðin kæmu seinna í þroskaferlinu.

Of góð hjálp hinna fullorðnu

Það var einnig skoðun Pratt að nemendur væru öruggir með sig í leiknum svo lengi sem þeir fengju þar frið fyrir hinum fullorðnu. Hún áleit að of góð hjálp hinna fullorðnu (the over-helpful adult) virkaði sem hindrun en ekki hjálp og gæti lokað á skilning nemenda. Hún sagði það besta mál að nemendur þyrftu sjálfir að hafa fyrir því að finna svör við spurningum sínum og taldi það sóun á tíma þeirra og hinna fullorðnu að færa þeim svörin. Hins vegar fannst henni nauðsynlegt að hinir fullorðnu hefðu ávallt opnar spurningar í farteskinu því þær skerptu athygli og hugsun nemenda.

City and Country School

Með þessa reynslu að leiðarljósi hélt hún ótrauð áfram og fyrir tilstuðlan velgjörðamanna sinna kom hún á fót nýjum skóla haustið 1914 og þar með hófst áratuga farsælt skólastarf þar sem athafnasemi nemenda leiddi starfið með stuðningi hinna fullorðnu (Pratt 1948). Fyrstu og yngstu nemendurnir sem hófu nám í skólanum voru fjögra og fimm ára en fleiri aldurshópar bættust við eftir því sem árunum fjölgaði.

Störfin

Kubbarnir og vettvangsferðir léku jafnan stórt hlutverk í starfi yngri nemenda en önnur störf bættust við eftir því sem þau urðu eldri og kröfur til þeirra jukust. Verkefnin voru ekki aðeins fjölbreytt heldur voru þetta raunveruleg störf sem kröfðust bæði ábyrgðar, þekkingar og leikni. Þekkinguna sóttu nemendur meðal annars til námsgreina sem tengdust því fræðasviði sem störf þeirra byggðu á hverju sinni og á þann hátt varð bóklegt nám eðlilegur og nauðsynlegur hluti af starfi skólans.

Inn í hlutverkaleikinn, sem fylgdi vinnu sex og sjö ára nemenda með kubbana, samþættist vinna með lestur, skrift og reikning. Ljóða- og sögugerð spratt upp af þeirri reynslu sem þeir öðluðust af kynnum sínum af umhverfinu. Þörfin fyrir talnavinnu kom sjálfkrafa þar sem verslanir í kubbaborgunum voru sjálfsagðar en í búðarleiknum voru notaðir raunverulegir peningar sem nemendur báru ábyrgð á. Aðrar námsgreinar eins og heimilisfræði, listgreinar og landafræði tengdust vinnu með kubbana en einnig áttu nemendur rólegar stundir þar sem þeir sinntu hugðarefnum sínum, s.s. bókalestri, leirmótum og skrifum.

Átta ára nemendur fengu það hlutverk að sjá um verslun skólans þar sem hægt var að fá nauðsynjavörur á borð við blýanta og pappír. Vinnan sem tengdist verslunarstörfunum þarfnaðist talsverðrar færni í lestri, skrift og reikningi og hvatti það nemendur til dáða á þeim vettvangi.

Verslunin kallaði á aðra þjónustustofnum sem var pósthús en níu ára nemendum var falin sú ábyrgð og sáu þeir um alla póstþjónustu innan skólans. Þessu fylgdi að sjálfsögðu heilmikil athugun á almennri póstþjónustu og framleiðsla og sala á tengdum varningi.

Tíu ára nemendur aðstoðuðu í matsal og sáu um að útbúa forskriftarrenninga fyrir sjö ára nemendur en sú vinna leiddi þá síðan út í rannsóknir á leturgerð og skrautritun.

Prentsmiðja var sett á laggirnar og var hún í umsjá ellefu ára nemenda. Þau sáu um prentun á ýmsu efni, s.s. lestrarefni fyrir yngri nemendur og útgáfu skólablaðs.

Tólf ára nemendur tóku að sér framleiðslu leikfanga sem bæði voru notuð í kubbaleik þeirra yngri og seld út fyrir skólann. Samhliða því lærðu þeir um þroskaferil barna og tók hvert þeirra að sér og annaðist eitt barn úr hópi þeirra sem voru fjögra ára. Þeir sendu einnig frá sér bókmenntagagnrýni einu sinni í mánuði en þar gagnrýndu þeir nýútkomnar barnabækur sem þeir fengu sendar frá bókaforlögum. Lestur dagblaða var þáttur í starfinu og fræddust nemendur þar um málefni líðandi stundar sem leiddi þá svo að fortíðinni og sögulegum atburðum sem þá áttu sér stað.

Elstu nemendurnir (13 ára) lögðu m.a. stund á ljósmyndun og lærðu bæði að framkalla og stækka myndir.

Réttur einstaklingsins

Í starfi sínu tók Pratt ekki aðeins mið af nemandanum eins og hann birtist innan veggja skólans heldur tók hún allt líf hans með í myndina „…for in this kind of school it is the whole child one must come to know, not just the clean and guarded little face which he brings to the traditional school.“ (Pratt 1948:39). Hún taldi það rétt hvers einstaklings að vera öðruvísi en hópurinn og sagði það hluta af því að lifa í siðmenntuðum heimi fullorðinna. Enginn var neyddur til að taka þátt í hópumræðum sem áttu sér stað í tengslum við dagleg verkefni og var hverjum nemenanda frjálst að leggja rækt við eigin hugðarefni í stað þess að fylgja fjöldanum. Hins vegar enduðu nemendur oftar en ekki á því að tengjast meginverkefnum hverju sinni á einhvern hátt og þá vegna þess að verkefnið sjálft dró þá til sín en ekki utanaðkomandi þrýstingur. Pratt sagði nemendur læra vel og af ákafa þegar þeir hefðu þörf fyrir þekkinguna. Þeir færu mislangt en í skólanum var það almennt viðurkennd regla að hver nemandi hefði rétt til að fara á sínum hraða í gegnum námið og það var hennar trú að þrautseigja nemenda færði þá alla meira og minna að settu marki.

„The fast ones are rarely fast in everything; they use extra time to round out their learning. The slower ones catch up in time, very often with a firmer grip on what they have learned than the quicker child, and certainly with the confidence in themselves that they would never have if the pace were forced.“    (Pratt 1948:51)

Frelsið og áhuginn

Pratt taldi að með starfinu í skólanum hafi verið sýnt fram á tengls milli frelsis og áhuga. Hún sagði frelsið í sjálfu sér ekki hafa gildi, það nyti enginn góðs af frelsi sem leyfir eyðileggingu og yfirgang. Frelsi væri aðeins gott ef það fæli í sér eitthvað jákvætt og beindi áhuga nemenda í jákvæðan farveg. Sá nemandi er frjáls sem hefur áhuga á því sem hann er að gera og hefur nóg fyrir stafni. Það að tilheyra hópi hefur áhrif á hegðun nemenda, þeir þurfa að fylgja ákveðnum samskiptareglum til að þrífast í skólasamfélaginu líkt og í samfélagi hinna fullorðnu.

Agi agans vegna sem var hin viðtekna regla hins hefðbundna uppeldis, átti enga fylgni í skólanum. En frelsi frelsisins vegna var ekkert betra fyrirbæri. Frelsið til að starfa og sá agi sem fólst í viðfangsefnum, bæði í einstakling- og hópvinnu, voru þau gildi sem færðu nemendum aukinn þroska.


Þessi agi felst í kubbastarfinu þar sem nemendur eru niðursokknir í tilraunir sínar við að skapa stöðugar byggingar og að endurskapa þá veröld sem þeir lifa og hrærast í. Þar er svo sannarlega virkt starf á ferðinni og ekkert síðra en störf hinna fullorðnu úti í samfélaginu.

Góðir kennarar eru lífæð hvers skóla

Eitt af þeim vandamálum sem Pratt þurfti að finna lausn á í starfi skólans var að fá hæfa kennara til starfa en á þeim tíma var engin menntastofnun sem byggði kennaramenntun á þeirri hugmyndafræði sem skólinn starfaði eftir, engin stofnun „… which could supply me with this most precious kind of material.“ (Pratt 1948:60).

Pratt áleit góða kennara vera lífæð hvers skóla. Þeir gera kennsluna jafnt að list sem vísindum. Kennarinn lifir og hræirst með nemendum í daglegu starfi. Það er sama hvert kerfið er sem stýrir kennslunni, hvort sem það er hefðbundið eða framsækið, þá er það ætíð kennarinn sem verður að túlka og bregðast við miðað við þá einstaklinga sem kennslan beinist að hverju sinni. Hann verður að taka margar ákvarðanir daglega og jafnvel spinna þær áfram frá einu augnabliki til annars og hefur það áhrif á kennsluaðferðir hans.

Kennarinn verður að læra um nemendur með því að vinna með þeim og aðlaga námskrá að þörfum þeirra og þroska hverju sinni, bæði einstaklinga innan hópsins og hópsins í heild. Hann verður að vita hvernig á að bregðast við mismunandi aðstæðum og takast á við ýmsar spurningar og álitamál eins og hvenær hægt er að leiða nemendur skrefinu lengra í námi, hvers konar upplýsingar þeir þurfi og hvernig megi miðla þeim á merkingarbæran hátt til þeirra.

Kennarinn þarf að takast á við hegðunar- og tilfinningaleg vandkvæði nemenda og veita þeim öryggi, hvatningu og stuðning. Allt eru þetta kröfur sem hver kennari getur átt von á að takast á við í starfi, burtséð frá því hvert kerfið er og slíkan kennara má finna í hvaða skóla sem er. Þeir voru að mati Pratt því miður of sjaldgæfir í hennar tíð.

Pratt bauð sjálfboðaliðum, sem sýndu starfi skólans áhuga, að gerast kennaranemar við skólann í þeim tilgangi að veita þeim beina reynslu af starfinu og freista þess að ala þannig upp nýja kennara. Þessir nemar fengu enga formlega kennslu aðra en þá sem fólst í vikulegum umræðutímum með Pratt þar sem reynsla þeirra af starfinu var rædd, þátttöku í starfsmannafundum og daglegum umræðum. Pratt taldi reynsluna af því að vinna með nemendum mikilvægasta fyrir þá og koma vel í staðinn fyrir skipulagt námskeið í uppeldisfræðum. Margir af öflugust kennurum skólans komu síðar úr þessum hópi.

Námskrá skólans

Pratt forðaðist lengi vel að semja námskrá fyrir skólann því hún óttaðist að slíkt myndi aðeins hefta starfið. Hún taldi það ekki skapandi starf sem færi eftir fyrirfram gerðri formúlu en sagði að námskráin ætti að byggjast á reynslu nemenda af þeim athöfnum sem þeim væri boðið upp á. Hún vildi að kennararnir beindu augum sínum að nemendum en ekki einhverju skipulagsplaggi og að þeir „… hefðu frelsi til að vinna úr sínum eigin hugmyndum, til að eflast í skilningi á börnum og til að skipuleggja fyrir börnin um leið og þeir lærðu af þeim.“ (Pratt 1948:65). Aðeins þannig gat skólinn nýst nemendum.

En Pratt reyndist oft erfitt að útskýra hugmyndafræði sína og samkomulag varð um að hún setti fram ramma að námskrá sem kennararnir fylltu upp í með því að skrá það sem fram fór á vettvangi. Iðjuskráningar sem þessar voru þegar hluti af daglegu starfi skólans en megintilgangur þeirra var að skapa grundvöll þar sem kennarar gætu bæði skoðað eigið starf og atferli nemenda. Fram til þessa höfðu kennarar beint athyglinni að einstaklingum í iðjuskráningum sínum en nú voru þeir hvattir til að beina henni frekar að hópnum sem heild en með því var talið auðveldara að greina félagslega reynslu nemenda.

Play Experiences – Practical Experiences

Með það að leiðarljósi að reynslan væri grundvöllur náms, setti hún fram tvo megin flokka sem hún skilgreindi sem kjarnann í starfinu. Annars vegar var „Leikreynsla“ - Play Experiences – sem náði yfir vinnuna með kubbana, hlutverkaleikinn og listir og hins vegar „Starfsreynsla eða hagnýt reynsla“ - Practical Experiences – en þar undir féllu störfin sem nemendur önnuðust innan skólans og voru hluti af námi þeirra. Þar að auki voru tveir undirflokkar, sem voru nokkurs konar stuðningsflokkar. Annar þeirra fékk heitið „Færni eða tækni“ - Skills or Techniques –  sem náði yfir þjálfun skilningsvitanna, talnavinnu, móðurmál og tónmennt en hinn „öflun og úrvinnsla upplýsinga“ - Enrichment of Experience, seinna Organization of Information, þ.e. vettvangsferðir, umræður, notkun bóka og frásagna og allar leiðir sem notaðar voru til upplýsingaöflunar.

Stuðningur við skólastarfið

Fyrstu árin bar skólinn nafnið Play School en seinna var því breytt í City and Country School og ber hann það nafn enn í dag. Þar sem skólinn var langt frá því að vera sambærilegur við hina hefðbundnu skóla þessa tíma fór hann að vekja athygli fyrir framsækið starf og fræðimenn á borð við John Dewey sýndu honum áhuga. Pratt segir frá því í bók sinni I Learn from Children að Evelyn Dewey, dóttir John Dewey, hafi heimsótt skólann í því skyni að safna efniviði í bók sem hún vann að með föður sínum og bar heitið Schools of Tomorrow.

Þar leit fyrsta viðurkenningin dagsins ljós og í kjölfarið urðu heimsóknir utanaðkomandi aðila algengar og aukinn fjárstuðningur barst til starfsins. Meðal þeirra sem komu voru Harriet M. Johnson, stofnandi Harriet Johnson Nursery School og Lucy Sprague Mitchell, stofnandi Bureau of Educational Experiments (seinna Bank Street College of Education), en hún átti eftir að verða einn helsti stuðningsmaður skólans jafnframt því sem hún kenndi þar.

Árið 1919 hófu þær Johnson, Mitchell og Pratt formlegt samstarf undir merkjum Bureau of Educational Experiments. Þær rannsökuðu þroskaferil barna frá leikskólaaldri til unglingsáranna og hvers konar kennsluaðferðir, námsefni og námsumhverfi hentaði þeim best en kenningar John Dewey um tengsl barns og náms í lýðræðislegu samfélagi mótuðu sterklega viðmiðun þeirra og námsáætlanir. Á þessum árum skráði Johnson m.a. stigskipta þróun í kubbaleik barnanna en Mitchell þá þekkingu sem kubbarnir leiddu af sér.

Lokaorð

Caroline Pratt tók fyrst og fremst mið af eðli og þörfum nemenda við skipulag námsins. Hún leitaði eftir uppsprettu reynslunnar í því samfélagi sem nemendur hennar lifðu í en við það vaknaði þörf á að nýta fræðigreinar til að varpa skýrari ljósi á reynslu þeirra og efla þekkingu þeirra á mismunandi fræðasviðum. Starfið byggði á hugsmíði þar sem nemendur tóku virkan í að móta rauntengt námsumhvefi sitt undir styrkri leiðsögn hæfra kennara og þar var ætíð byggt á reynslu þeirra.

Pratt forðaðist aftur á móti stífa ramma hins hefðbundna skóla sem hafa eflaust haft áhrif á andstöðu hennar við að semja námskrár fyrir sinn skóla. Þessi andstaða við námskrá þýðir ekki endilega að starfið hafi verið óskipulagt. Má í því skyni benda á daglegar iðjuskráningar sem voru hluti af starfi kennaranna og lögðu grunninn að mati á starfinu og áframhaldandi uppbyggingu þess. Þannig var stöðug námskrárþróun í gangi og sífellt verið að tengja starfið við hugmyndafræðina sem skólinn byggði á.

Pratt taldi kennara gegna lykilhlutverki í allri ákvarðanatöku og er það í takt við þá strauma nútímans sem hvetja kennara til að að líta á námskrágerð og kennslu sem eina heild eins og raunin er í daglegu starfi þar sem þeir eru sífellt að aðlaga markmið og leiðir að aðstæðum í skólaskofunni.

Caroline Pratt var ötull fulltrúi framfarastefnunnar. Sem stofnandi City and Country School lagði hún sitt af mörkum til þeirrar viðleitni að brjóta á bak aftur hin hefðbundnu öfl sem stjórnuðu öllu skólastarfi. Hún sinnti því lítt að kynna starf skólans út á við og taldi það sóun á tíma, honum væri betur varið með börnunum sjálfum og að fræðast um þau. Áðurnefndar iðjuskráningar voru hins vegar birtar og þjónuðu vel þeim tilgangi að útskýra hugmyndafræði skólans og gætir áhrifa þeirra enn þann dag í dag. Áhrifin birtast í því starfi sem haldið hefur verið í heiðri í City and Country School fram á þennan dag og í hugmyndafræðinni á bak við notkun einingakubbanna.

Heimildir

Cuffaro, Harriet K. 1991. A view of Materials as the Texts of Early Childhood Curriculum. Issues in Early Chidhood Curriculum. Ritstj. Spodek, B. & Sarach, O.N. Vol.2:64-85. New York. Teachers College Press.

Cuffaro, Harriet K. 1992. Blocks,The Development of, in the United States. Encyclopedia of Early Childhood Education. Ritstj.: Leslie R. Wiliams og Doris P. Fromberg. New York og London. Garland Publishing INC.

Pratt, Caroline. 1948. I Learn from Children. New York. Harper & Row.

Williams, L.R. 1992. Pratt, Caroline. Encyclopedia of Early Childhood Education. Ritstj.: Leslie R. Wiliams og Doris P. Fromberg. New York og London. Garland Publishing INC

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS