Skip to content

Um vefinn

Ég er leik- og grunnskólakennari og hef starfað í Grundaskóla á Akranesi frá árinu 1982. Þar hef ég aðallega kennt á yngsta stigi en auk þess hef ég einnig sinnt stjórnunarstörfum og verkefnastjórnun við gæðamat og umferðarfræðslu. 

Áhugasvið

Á vefnum mínum mun ég fjalla um helstu áhugasvið mín tengd kennarastarfinu en þau snúast aðallega um nám og kennslu ungra barna. Hvert svið hefur sína sérstöðu en samtímis bjóða þau upp á innbyrðis tengsl því öll vinna þau að því að laða fram styrkleika barna og hlúa að þeim þannig að þau njóti sín á eigin forsendum í skólastarfinu. Hér má sjá stutt yfirlit yfir þessi áhugasvið:

Einingakubbar Caroline Pratt (Unit Blocks)

Einingakubbar C.Pratt voru viðfangsefni mitt í B.Ed. lokaritgerð minni frá KHÍ og aftur í Námskrárfræði við framhaldsdeild KHÍ. Kubbar þessir eiga uppruna sinn í Bandaríkjunum en þeir voru hannaðir af bandaríska uppeldisfrömuðinum Caroline Pratt á fyrstu áratugum 20. aldar. Ég hef farið víða með fyrirlestra um kubbana en á þeim fer ég yfir það sem felst í starfi barna þegar þau byggja úr kubbunum, þá stigskiptu þróun sem einkennir byggingarferlið, hvernig vinna með kubbana styrkir þekkingu barna á undirstöðuatriðum stærðfræðinnar og hvernig má nýta þá í samfélagsfræði.

Project Spectrum – Litróf hæfileika barna

Project Spectrum er langtímarannsókn sem unnin var á árunum 1984 til 1988 í samvinnu sérfræðinga við Harvard Project Zero og Tufts University. Meginverkefni hennar var að þróa rauntengdar leiðir til að meta hugræna færni leikskólabarna á fimmta aldursári og ná þannig til víðari færnissviða en hefðbundnar matsleiðir gerðu ráð fyrir.

Rannsóknin byggir á kenningum þeirra Howard Gardner um fjölgreindir og David Feldmann um sértækan einstaklingsbundinn þroska og gengur út frá þeirri tilgátu að hvert barn búi yfir einstaklingsbundinni færni og möguleikum til að efla styrk sinn á einu eða fleiri sviðum fái það til þess aðgengileg tækifæri.

Í langtímarannsókninni voru þróuð voru lærdómsrík matsverkefni sem spönnuðu sjö verksvið, þ.e. móðurmál, stærðfræði, hreyfingu, tónlist, náttúruvísindi, samskipti og myndlist en í hverju þeirra fólst ákveðin grunnfærni eða kjarnaþekking sem skilgreind var út frá fjölgreindakenningu Gardners. Til að ná árangri á hverju sviði fyrir sig urðu nemendur að geta tileinkað þér þessa grunnfærni. Kenning Feldmanns um þroskaferil innan verksviða var höfð til hliðsjónar þegar viðmið um árangur voru sett. Þannig urðu verkefnin hvort tveggja í senn hluti af námskránni og matstæki þar sem fylgst var með nemendum takast á við þau og frammistaða þeirra og framfarir metnar út frá skilgreindum forsendum.

Byrjendalæsi

Skólaárið 2007 – 2008 hófu grunnskólarnir á Akranesi þátttöku í Byrjendalæsi sem nýr valkostur í byrjendakennslu í lestri. Ég tók þátt í innleiðingu aðferðarinnar hér á Akranesi bæði sem umsjónarkennari og sem leiðtogi fyrir báða skólana.

Byrjendalæsi er þróað af Rósu Eggertsdóttur og félögum hjá Skólaþróunarsviði kennaradeildar Háskólans á Akureyri. Á vef skólans segir um aðferðina:

„Um er að ræða samvirka kennsluaðferð þar sem jöfnum höndum er unnið með merkingu máls og tæknilega þætti lestrarnámsins. Byrjendalæsi er byggt á kenningum lestrarfræða um áhrifarík og vönduð vinnubrögð. Meðal annars var sótt í smiðju NRP2000 rannsóknarinnar um mikilvægi þess að kennsla í lestri feli í sér samþætta nálgun sem nái til allra þátta móðurmálsins. Því er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld saman í eina heild í byrjendalæsi. Ennfremur eru sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, orðaforði, setningabygging, málfræði og skrift tengdir inn í ferlið. Meginmarkmið byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem fyrst á skólagöngu sinni. Byrjendalæsi gerir ráð fyrir því að hægt sé að kenna börnum sem hafa ólíka færni í lestri hlið við hlið, því er lögð áhersla á hópvinnu um leið og einstaklingsþörfum er mætt.“ Sótt 14.07.2009

Samstarf leikskóla og grunnskóla – Brúum bilið

Allt frá árinu 1994 hef ég unnið að samstarfi leikskóla og grunnskóla á Akranesi. Til að byrja með náði samstarfið aðeins til Grundaskóla og leikskólans Garðasels en frá árinu 1997 hefur það verið undir stjórn Skólaskrifstofu Akraness og er nú orðið fastur liður í starfsemi allra leikskólar bæjarins og beggja grunnskólanna.

Helstu markmið samstarfsins eru að stuðla að vellíðan og öryggi barna við að fara úr leikskóla í grunnskóla og að byggja upp gagnkvæma þekkingu og skilning á starfi kennara á hvoru skólastigi sem ýtir undir að samfella myndist í námi barna á þessum tveimur skólastigum.

3 Comments
 1. Rós permalink

  Frábært framtak Ásta. Til hamingju með þetta.

 2. Elín Ágústsdóttir permalink

  Hæ Ásta
  Þetta er bara frábært
  Eg er búin að fara vel yfir þetta og fullkomið en það sem ég get sagt.

  kær kveðja
  Elín

 3. Guðrún Sigursteinsdóttir permalink

  Frábær vefur sem stuðlar að samræmi í kennslu elstu barna í leikskóla og yngstu barna í grunnskóla. Takk fyrir Ásta.

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS