Skip to content

Barnið í skólastofunni

Í starfi er okkur kennurum falið að efla alhliða þroska barna og við öxlum þá ábyrgð. Þegar við skipuleggjum vinnu okkar tökum við fjölda ákvarðana sem móta daglegt starf og endurspegla hugmyndir okkar um það sem við teljum mikilvægt að börn læri. En við verðum einnig að gera okkur grein fyrir þeim áhrifum sem ákvarðanir okkar hafa á uppeldi og menntun barna. 

Við upphaf grunnskóla eru börn upptekin af því sem er hér og nú og eiga erfitt að gera sér grein fyrir því sem er fjarri þeim í tíma og rúmi. Viðfangsefnin verða því aðeins merkingarbær að þau taki mið af nærumhverfi barnanna og feli í sér beina reynslu. Skipulag kennslu og námsumhverfis verður að taka mið af þessum staðreyndum og gera ráð fyrir að börn fái tækifæri og samfelldan tíma til að vinna með fjölbreyttan efnivið sem virkjar bæði huga og hönd. Efniviðurinn verður ætíð að taka mið af því þekkta í reynsluheimi barna en um leið verður hann að fela í sér nýjungar sem virka ögrandi á þau og vekja forvitni þeirra og athafnaþrá.

Börn verða ennfremur að fá frið til að kynnast efniviðnum sem þau vinna með hverju sinni og möguleikum hans, frið til að vinna saman að hugðarefnum sínum þar sem þau geta rætt málin og fundið sameiginlegan flöt á tilverunni. Þau hafa almennt þörf fyrir að deila hugmyndum sínum með félögum sínum og njóta þess að að rannsaka nýja hluti og fyrirbæri og leysa mál í samvinnu við aðra.

Börn þurfa að finna að skoðanir þeirra skipta máli og að þeim sé fagnað en ekki hafnað. Þau þurfa líka að venjast því að skoðanir fólks eru misjafnar og að það sé í lagi að ágreiningur rísi um menn og málefni. Um slíkt á að reyna að ná samkomulagi með uppbyggjandi samræðum í stað neikvæðrar gagnrýni. Kennarinn er fyrirmynd barnanna í þessum efnum. Það er hans hlutverk að hjálpa þeim að leysa ágreiningsmál sín í milli á farsælan hátt og læra að starfa saman í sátt og samlyndi.

Skipulag námsumhverfis.

Í bókinni Experimenting with the World. John Dewey and the Early Childhood Classroom (1995) fjallar Harriet Cuffaro um hugmyndir John Dewey um barnið sem félagsveru og samspil þess við umhverfi sitt. Þar kemur fram að taka þarf mið af tveimur atriðum í öllu skipulagi: 

  • Í fyrsta lagi verðum við að bjóða upp á fjölbreyttar og krefjandi aðstæður sem gera börnunum kleift að átta sig á hvers þau eru megnug. Í þessu sambandi talar Dewey um möguleikann og getuna en það eru tveir samverkandi áhrifaþættir í þroska barna sem birtast ekki nema aðstæður geri kröfur til þeirra. Getuna skilgreinir hann sem eitthvað móttækilegt og tengir það færni og styrk en möguleikann sem kraft eða afl sem blundar hið innra. Hvort tveggja kallar á athafnafrelsi barna og frjálsa umferð um skólastofuna svo þau geti starfað saman og lært hvert af öðru. 
  • Í öðru lagi verðum við að greiða fyrir gagnkvæmum samskiptum og hvetja til boðskipta sem eru forsenda þess að samfélag þrífist. Dewey hélt því fram að skólinn væri samfélag í smækkaðri mynd sem grundvallaðist á lýðræðislegum samskiptum. Með það í huga sköpum við aðstæður þar sem börn geta unnið að sameiginlegum verkefnum bæði innan skólastofunnar og utan. Við verðum að skapa þeim vettvang, s.s. vinnu á sameiginlegum svæðum, vettvangsferðir og leik, þar sem þau öðlast sameiginlega reynslu og efla samkennd sína. Nálægðin ein nægir ekki til að skapa samfélag og viðhalda því, einstaklingarnir verða að eiga möguleika á að „…deila verkum…starfa saman að sameiginlegu markmiði…“ (Cuffaro 1995:26 og 33). Fyrir tilstuðlan boðskipta höfum við áhrif á hvert annað. Þau eru tækið sem tengir okkur saman og hjálpar okkur að skoða hlutina og bregðast við þeim frá öðru sjónarhorni en okkar eigin. Atburðir öðlast líf í hugum okkar við það að vera nefndir og hafa áhrif á hugsun okkar þegar við berum nýjar upplýsingar saman við þær sem fyrir eru og endurskoðum hug okkar út frá því. Boðskiptin eru bæði markmið og leið að markmiðum.

Efniviður

Grundvallaratriðin í hugmyndafræði John Dewey, þ.e. virkni og félagsleg samskipti, sjá okkur fyrir viðmiðunarramma um val á efniviði í skólastofuna. Þessi grundvallaratriði krefjast virkrar þátttöku barna og að hvatt sé til boðskipta og tengsla innan hópsins. Efniviðurinn sem við veljum verður að svara þessum kröfum. 

Bók án orða

Efniviður í yngri barna kennslu, s.s. einingakubbar, málning, leir og litir, hefur verið túlkaður sem námsbókartexti að því leyti að hann býður börnum upp á leiðir til að afla reynslu og tjá hana ásamt þekkingu á sjálfum sér og umhverfinu. Hann er bók án orða og það er hlutverk barnanna að skrá textann og ljá honum merkingu, sbr. Fröbel, sem leit á leikföngin sín sem „óyrtan texta“ sem fengi merkingu í leik barna. Caroline Pratt leit einnig þessum augum á sína kubba þó sjónarhorn hennar væri annað. Hún ýtti undir táknrænan leik með því að búa til fólk og dýr sem notuð voru í hlutverkaleiknum sem fylgdi byggingum barna. Út frá honum spunnust rannsóknir á umhverfinu og umræður sem vöktu spurningar um samfélagsleg málefni og leiddu börn og kennara út á nýjar brautir í rannsóknum. Þannig byggðu börn smám saman upp þekkingu sína á umhverfinu og grundvallaðist hún á reynslu þeirra. Einnig uppgötvuðu þau og lærðu ýmis fyrirbæri á sviði stærðfræði og vísinda við það að meðhöndla kubbana og byggja úr þeim.

Virk þátttaka kjarninn í skipulagi náms

Þátttaka barna er kjarninn í öllu skipulagi náms og er þá átt við virka þátttöku sem felst í framlagi þeirra til starfsins, framlagi sem sjaldan verður ákveðið fyrirfram. Hverfull og flöktandi áhugi þeirra elur af sér mörg ófyrirséð atvik sem hafa áhrif á skipulagið og verðum við að taka tillit til þess. Við mótum þekkinguna og þá stefnu sem námið tekur með börnunum og látum af beinni og einhliða stýringu en tryggjum þeim þess í stað vinnufrið. Námsáhugi þeirra og persónulegt framlag til námsins eru forsendur þess að árangur náist. Börnin og námsumhverfið hafa víxlverkandi áhrif á hvort annað og verða ekki aðskilin „…the two are “in“ and “of“ each other,…“ (Cuffaro 1995:46). 

Heimildir

Armstrong, Thomas. 2001. Fjölgreindir í skólastofunni. Íslensk þýðing: Erla Kristjánsdóttir. Reykjavík. JPV ÚTGÁFA.

Cuffaro, Harriet K. 1991. A view of Materials as the Texts of Early Childhood Curriculum. Issues in Early Chidhood Curriculum. Ritstj. Spodek, B. & Sarach, O.N. Vol.2:64-85. New York. Teachers College Press.

Cuffaro, Harriet K. 1995. Experimenting with the World. John Dewey and the Early Childhood Classroom. New York. Teachers College Press

Gunnar Ragnarsson. 1994. Um John Dewey. Hugsun og menntun. Reykjavík. Rannsóknarstofnum Kennaraháskóla Íslands.

Seefeldt, C. og Galper, A. 2000. Active Experiences for Active Children. Social Studies. New Jersey. Merril Prentice-Hall.

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS