Skip to content

Samfella í námi – John Dewey

Að tryggja samfellu í námi er vandasamt verk. Það krefst þess af kennurum að þeir búi bæði yfir góðri þekkingu á þroskaferli barna og kennslufræðilegri þekkingu sem tryggir faglega framgöngu þeirra í starfi. Þeir þurfa að gera sér grein fyrir þekkingu og færni nemenda sinna og þeim reynsluheimi sem þeir eru sprottnir úr svo byggja megi upp merkingarbært nám sem stuðlar að jákvæðri reynslu og vekur löngun þeirra til frekara náms. 

Samfella (continuity) er eitt af grundvallarhugtökum í heimspeki John Dewey þar sem hann tengir hugtakið við reynsluna og áhrif hennar á þá stefnu sem menntun og þroski einstaklingsins getur tekið. Samfellan birtist í því að þráður reynslunnar er jafnan óslitin. Hennar vegna flytur einstaklingurinn það sem hann verður fyrir í einum aðstæðum yfir til síðari aðstæðna og því lifir sérhver reynsla áfram í nýrri reynslu.

En það er ekki sama hvers eðlis reynslan er. Dewey greinir á milli jákvæðrar reynslu sem stuðlar að menntun og auknum þroska og reynslu sem hefur neikvætt menntunarlegt gildi. Sú síðarnefnda getur hindrað þroska eða beint honum í óæskilegan farveg stöðnunar, skipulagsleysis og þröngsýnis og dregið úr möguleikum einstaklingsins til að vinna uppbyggilega úr því sem síðar verður á vegi hans. Armstrong (2000) setti fram hugtakið „reynsla sem lamar“ gagnstætt hugtakinu „reynsla sem tendrar“ sem sótt er í smiðju Howards Gardner o.fl. Þessi tvö ferli hafa afgerandi áhrif á það hvort einstaklingur nær að þróa greindir sínar á árangursríkan hátt eður ei. Þarna er um að ræða upplifun eða reynslu sem einstaklingur verður fyrir og kveikir annað hvort óstöðvandi áhuga á hans á einhverju viðfangsefni eða drepur niður löngun eða áræði til að takast á við hlutina. Sú fyrrnefnda stuðlar að því að einstaklingurinn þróar persónulega hæfileika sína oft til ýtrustu fullkomnunar en hin síðarnefnda kemur í veg fyrir að greindir þróist og dafni.

„Reynsla og menntun verða ekki beinlínis lagðar að jöfnu. Því sum reynsla getur verið neikvæð í menntunarlegu tilliti.“  ( John Dewey 1938:35)

Til að reynsla geti talist menntandi verða þeir sem hana skipuleggja að hafa skýrar hugmyndir um hvað felst í reynsluhugtakinu. Þeir verða að gera sér grein fyrir því hvers konar athafnir „…lifa á frjóan og skapandi hátt í síðari reynslu“ (Dewey 1938:38) og eru sem slíkar einhvers virði í menntunarlegu tilliti. Reynslan mótar tilfinningaleg og vitsmunaleg viðhorf einstaklingsins til hins betra eða verra og hefur áhrif á viðbrögð hans í öllum þeim aðstæðum sem hann lendir í. Þannig myndast stöðug víxlverkun milli þess sem var, er og mun gerast fyrir tilstilli frumreglunnar um samfelluna í reynslunni. Reynslan er því hreyfiafl sem hefur afgerandi áhrif á það hvert einstaklingurinn stefnir og verður gildi hennar „…aðeins metið út frá því hvert hún stefnir og að hverju.“ (Dewey 1938:48). Hlutverk kennara í þessu sambandi er að vera vel vakandi yfir því hvers konar viðhorf mótast meðal nemendahópsins og einstaklinga innan hans. Hann þarf að bera skynbragð á hvers konar viðhorf þarf að leggja rækt við til að stuðla að farsælu og árangursríku námi nemenda en hluti af því er að þekkja vel til þeirrar reynslu sem vinnur þar á móti. 

Reynsla nemenda mótast af því umhverfi sem þeir alast upp í. Kennari sem vill bjóða nemendum sínum upp á merkingabært nám tekur ætíð tillit til hins sérstæða reynsluheims sem hvert nemandi færir með sér inn í skólann og leitast við að samþætta hann náminu. 

„Sú höfuðábyrgð hvílir á kennurum að þeir geri sér ekki aðeins grein fyrir því almenna lögmáli að raunveruleg reynsla mótast af umhverfisslikyrðum heldur og að þeir viti í raun og veru hvaða umhverfi stuðlar að reynslu sem leiðir til þroska.“  (John Dewey 1938:50)

Þetta krefst þess að kennarinn þekki hið efnislega og félagslega umhverfi nemenda og hafi kennslufræðilega þekkingu á því hvernig hann getur nýtt sér það til að skapa námsumhverfi sem elur af sér jákvæðu reynslu og vekur löngun nemenda til frekara náms. Hann skoðar samspilið á milli hins ytri veruleika og þarfa nemenda og þá reynslu sem af því samspili hlýst. Út frá því mótar hann námsaðstæður og gerir ráð fyrir þeirri víxlverkun sem á sér ætíð stað milli nemenda og umhverfisins og mótar reynslu þeirra. 

Aðstæður eru misjafnar og breytast frá einum tíma til annars. Þannig mæta nemendur sífellt nýjum aðstæðum sem þeir verða að geta tengt saman í eina merkingarbæra heild. Fyrir tilstuðlan samfellureglunnar flytja þeir reynslu af einum aðstæðum yfir á aðrar en það sem þeir hafa „…tileinkað sér af þekkingu og færni í einum aðstæðum verður tæki til að skilja og fást á árangursríkan hátt við þær aðstæður sem á eftir koma.“ (Dewey 1938:54). 

Af þessu þarf kennari að taka mið þegar hann skipuleggur nám og námsumhverfi. Hann þarf að samþætta kröfur aðalnámskrár eins og þær eru á hverjum tíma og þarfir nemenda fyrir heildstætt og merkingarbært nám. Hann fær ekki breytt námskrám en möguleikar hans til að koma til móts við þarfir nemenda liggja í færni hans og þekkingu á því hvernig hann getur skipulagt námsaðstæður sem taka mið af hvoru tveggja.

Sú reynsla sem á sér stað hér og nú skiptir mestu máli í námi. Það sem nemendur upplifa á hverjum tíma hefur áhrif á það sem síðar verður og mótar viðhorf þeirra til náms. Þeir vinna úr reynslu sinni eins og hún er þegar þeir öðlast hana og fá út úr henni þá merkingu sem þeir hafa forsendur til hverju sinni. Sú úrvinnsla leggur grunninn að því sem á eftir kemur og því er mikilvægt að skilyrðin sem nemendum eru sköpuð til náms gefi „…hverri nú-reynslu merkingu sem er einhvers virði.“ (Dewey 1938:59).

Heimildir

Armstrong, Thomas. 2001. Fjölgreindir í skólastofunni. Íslensk þýðing: Erla Kristjánsdóttir. Reykjavík. JPV ÚTGÁFA.

Dewey, John. 1938. Reynsla og menntun. Íslensk þýðing: Gunnar Ragnarsson. Reykjavík. Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS