Skip to content

Frágangur

Þegar gengið er frá kubbum í hillur að leik loknum skapast kjörið tækifæri til að vinna með stærðfræðileg hugtök og reikniaðgerðir. Það er góður siður að stafla eins kubbum saman þegar byggingar eru „teknar niður“ sem gefur fjölbreytta möguleika á úrvinnslu. Með því að stýra frágangi í formi leiks getur kennari falið börnum sérstök verk eða beðið þau um að rétta sér mismunandi gerðir kubba og nota til þess ýmsar leiðir. Er t.d. hægt að vinna út frá:

  • lögun – hugtök sem gefa viðkomandi eiginleika til kynna
  • stærð – stærri en, minni en, jafnstór, langur/lengstur, stuttur/stystur, helmingur…
  • fjölda – færri en, fleiri en, jafnmargir 
  • reikniaðgerðum – samlagning, frádráttur, margföldun, deiling

Nauðsynlegt er að sýna form og fjölda sem unnið er með eða miðað er við í samanburði. Börn verða að fá skýra mynd af því sem átt er við svo þau geti sett hin stærðfræðilegu hugtök í rétt samhengi og aukið skilning sinn á þeim.  Kubbarnir bjóða upp á ótal möguleika til að vinna með hugtök og að þjálfa börn í meðferð talna. Þegar verkefnin eru valin verður að taka mið af aldri og þroska barnanna og muna að þau verða að eiga möguleika á að skynja eða „upplifa“ hugtökin til að skilja merkingu þeirra. Myndun hugtaka verður aldrei kennd beint.

Nægur tími

Mikilvægt er að börn fái nægan tíma til að ganga frá kubbunum og því yngri sem þau eru þeim mun meiri tíma þurfa þau. Of skammur tími til frágangs getur valdið kvíða hjá börnum og leitt til uppgjafar. Börnum fallast oft hendur þegar þau líta yfir byggingarsvæðið þar sem þeim finnst óendanlegt verkefni framundan. Því er mikilvægt að þau fái aðstoð hinna fullorðnu við fráganginn en nærvera þeirra skapar öryggi og verkið verður eftirsóknarvert og viðráðanlegt. Einnig er það góð regla að láta börnin vita með góðum fyrirvara að frágangur sé á næsta leyti. Þannig fá þau tíma til að ljúka leik sínum og búa sig undir tiltektina.

Sjálfstæð athöfn

Frágangurinn er í raun sjálfstæð athöfn sem felur í sér mörg áhugaverð verkefni. Börn hefja oft nýjan leik þegar þau ganga frá kubbunum þar sem þau búa til flutningabíla, skip og önnur faratæki sem flytja farminn á áfangastað. Þau verða oft niðursokkin í leik sinn og þannig verður frágangurinn nokkurs konar framlenging á þeim tíma sem þau fengu til að byggja úr kubbunum.

Ein lítil regla

Börn verða að tileinka sér þá reglu að það má aldrei hrinda byggingum. Þegar gengið er frá kubbum  inn í hillur verða þau að læra að taka efstu kubbana fyrst. Eins er gott að þau venji sig á að stafla kubbunum á gólfið eftir lögun og stærð því það auðveldar þeim að raða kubbunum í hillur. Greiður aðgangur að kubbahillunum auðveldar börnum frágang og það skapar öryggi að vita nákvæmlega hvert kubbarnir eiga að fara.

Heimildir

Hirsch, Elisabeth S. 1996. Blook Building-Practical Considerations for the Classroom Teacher.The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children. Leeb-Lundberg,

Kristina.1996. The Block Builder Mathematician. The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children.

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS