Skip to content

Hlutverkaleikur og einingakubbar

Harriet K. Cuffaro segir frjálsan leik bestu leiðina sem börnum býðst til að öðlast þekkingu og móta hana. Þar samþætta þau hugmyndir um raunveruleikann við sinn innri heim og vinna með ímyndanir sínar og tilfinningar. Hún segir leikinn hið sýnilega tungumál barnæskunnar og þar getum við fylgst með þroska barna við fjölbreyttar athafnir. Cuffaro dregur einnig fram tvo mikilvæga þættir leiksins, þ.e. virkni og sjálfsstjórnun. Virkni felur í sér þátttöku skynfæranna en sjálfstjórnun þýðir að börnin ákveða sjálf hvað hefji leikinn, hver framvinda hans verður, hvenær honum ljúki, hvað tilheyri og hvað ekki og hvaða tengingar eigi sér stað. Þau taka sjálf allar þessar ákvarðanir, meðvitað eða ómeðvitað, en val þeirra mótast af áhrifaþáttum eins og þroska þeirra, áhuga, forvitni, þekkingu og tilfinningum sem verða til í gagnvirkum samskiptum við umhverfið.

Áþreifanleg tákn um hugmyndir og tilfinningar

Hótel KE

Hlutverkaleik með einingakubbum má skilgreina sem sjálfstýrða starfsemi sem á sér stað milli barns og formsins sem barnið skapar og þar sem gagnvirk tengsl eru á milli barna og hlutar. Kubbabyggingar endurspegla reynslu barna og eru því áþreifanleg tákn um hugmyndir þeirra og tilfinningar. Þær virka einnig sem hvati til áframhaldandi starfa því út frá þeim vakna spurningar sem ættu sér vart stað án tengsla við hið hlutbundna. Börnin gera sér stöðugt betri grein fyrir raunveruleikanum og hugmyndaheimur þeirra verður auðugri. Þessa þróum má sjá í bygginum þeirra sem breytast og verða sífellt flóknari. Leikurinn sem tengist kubbunum þróast einnig líkt og byggingarnar. Til að byrja með er lítil samvinna meðal barnanna og þau byggja mest hlið við hlið. Það gerist hins vegar oft óvart að byggingar tengjast og við það skapast nýr grundvöllur að áframhaldandi starfi þar sem samvinnan kemur með nýjar víddir í leikinn. Tengslin aukast smám saman og sjá má eitt eða tvö börn leika sér í lauslegum samskiptum við aðra hópa en að lokum ræður samvinnan ríkjum og leikurinn verður staðfastari, skipulagðari og varir lengur. 

Að skapa samhengið fyrir leikinn

En hvort sem börn eru á stigi einhliða leiks eða farin að vinna með öðrum þá krefst notkun kubba í hlutverkaleik þess að þau skapi sjálf samhengið fyrir leikinn. Þau ganga ekki að hlutverkum á fyrirfram mótuðu sviði, líkt og í dúkkukróknum þar sem bæði sviðið og leikmunir bíða þeirra, heldur verða þau bæði að hanna sviðsmyndina fyrir leikinn og leika hlutverkin. Fullorðnir sjá um að útvega nægan efnivið og afmarka svæði sem verður að vera nægilega stórt og úr alfaraleið svo að börn geti unnið þar í ró og næði.

Táknbundið sjálf

Í Bíóhöllin

Notkun kubba í hlutverkaleik krefst þess líka að börn takist á við raunveruleikann þegar þau koma hugmyndum sínum í áþreifanlegt form og fari smám saman út fyrir sjálf sig yfir í táknbundið sjálf í leiknum. Eiginleikar þessir birtast almennt í leik barna um það bil sem þau hefja nám í grunnskóla þ.e. þeirra sem hafa fengið næg tækifæri bæði til að vinna með kubbana og fræðast um hinn efnislega og félagslega heim sem þau lifa í Notkun barna á táknum byggist á hæfni þeirra til að móta hugmyndir og tjá þær en eftir því sem börn eru yngri þeim mun erfiðara reynist þeim að láta einn hlut tákna annan. Þau framkvæma með því að vera sjálf hluti af því sem þau tákna, þ.e. þau sjálf og hið táknaða renna saman í eitt og tilfinningin fyrir því táknaða er látin í ljós. Með auknum þroska eykst hæfni barna til að skilja á milli sín og hins táknaða, þeim nægir ekki lengur að gæða hlutina lífi með hreyfingu og hljóðum og ímynda sér þá. Þau fara að nota ýmsa hluti til að tákna raunveruleikann og þau verða sífellt færari í að nota tákn sem eru ólík hinu táknaða. Um sex ára aldur velja börn frekar ómótaðan efnivið en raunverulega hluti til að nota í táknbundnum leik en það bendir m.a. á nauðsyn þess að bjóða upp á slíkan efnivið í kennslu yngri barna í grunnskólum. Þörfin fyrir að nota hluti sem tákn minnkar svo smám saman með aldrinum en samhliða því verða börn stöðugt leiknari í að skapa ýmis hlutverk með látbragði og orðum.

Skapandi þáttur leiksins

Í skógræktinni

Skapandi þáttur leiksins kemur fram þegar börn gera hugmyndir sínar að veruleika og þar sem kubbarnir hafa ekkert fyrirfram ákveðið heiti, s.s. vaskur eða rúm, krefjast þeir þess að börn aðhafist til þess að hlutverkaleikur geti farið af stað. Þau leita eftir samskiptum við aðra meðlimi kubbasamfélagsins og kynnast því sem þeir standa fyrir. Ný og breytileg hlutverk verða til og samskipta- og umgengnisreglur, sem allir verða að lúta, líta dagsins ljós. Með aukinni félagslegi færni eykst eiga börn auðveldar með að koma hugmyndum sínum á framfæri og þar með að skipuleggja kubbabyggðina í sameiningu.

Aukin vitund um raunveruleikann – ný sjónarhorn

Mamman að leggja af stað með börnin sín í leikskólann.

Eftir því sem vitund barna um raunveruleikann eykst fara þau að gefa honum meiri gaum og heimfæra hann upp á leikinn. Þau færast smám saman frá því að vera hluti af því táknaða yfir til hlutbundinnar stjórnunar hluta og leikmuna sem styðja leikinn. En til þess að vera fær um þetta verða börnin að losna úr viðjum sjálflægninnar og geta aðgreint sjálfið frá heildinni og skoðað hlutina hlutlægt. Í hlutverkaleiknum þar sem kubbar koma við sögu standa börn iðulega frammi fyrir því að þurfa að takast á við aðstæður sem neyða þau til að líta út fyrir sjálf sig og skoða málin frá nýju sjónarhorni. Þannig býðst þeim að endurskapa reynslu sína og leita svara við þeim spurningum sem vakna. Raunveruleikinn verður smám saman skýrari og aðgreindari og um leið áþreifanlegri og skiljanlegri. Hann verður aðgengilegra rannsóknarefni og börn eiga auðveldar með að ná stjórn á aðstæðum. 

Að byggja einn eða með öðrum

Einingarkubbarnir veita börnum færi á að velja sér félagslegar aðstæður. Þau geta byggt ein og út af fyrir sig því stundum verða þau að fá að vinna ein úr hugmyndum sínum, hugmyndum sem þau geta ekki deilt með öðrum en verða að skoðast hér og nú. Þau geta einnig átt samskipti við aðra út frá sinni byggingu eða tilheyrt litlum hópi sem er hluti af stærra kubbasamfélagi. Það sem skiptir máli hér er að efnið fellur ekki aðeins að félagslegu þroskaferli barna heldur einnig að hugarfari þeirra og þörfum augnabliksins.

Heimildir

Brody, Charlotte.1996. Social Studies and Self-Awareness. The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children.

Cuffaro, Harriet K.1996. Dramatic Play – The Experience of Block Building. The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children.

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS