Skip to content

Samfélagsgreinar

Einingakubbarnir nýtast einstaklega vel sem námsefni í samfélagsfræði. Í raun eru engar skorður á því til hverra hluta hægt er að nota þá þar, hvort sem það er til að byggja lítið samfélag eða hvers kyns fyrirbæri sem unnið er með í þemavinnu eða afmörkuðum verkefnum. Í City and Country School er vinnan með einingakubbana undirstaða náms í samfélagsgreinum og er fjallað um það í námskrá 5 ára, 6 ára og 7 ára barna á vef skólans.

Að byggja lítið samfélag

Þegar börnin byggja börnin sitt eigið samfélag taka þau mið af því umhverfi sem þau búa í og skapa með því tengsl við sitt daglega líf. Þau rannsaka umhverfi sitt og kynnast innbyrðis tengslum samfélsins sem þau búa í. Þau leita svara við spuningum sem snerta skipulag umhverfisins og byggingar, um íbúana og heimili þeirra, um atvinnu fólks, um þjónustu við fólkið  o.fl. o.fl. Hér á eftir fer lýsing á verkefni sem unnið hefur verið í Grundaskóla: 

Kynning og vettvangsferð

Verkefnið hefst á umræðum um bæinn okkar. Hvað vita börnin um bæinn sinn, hvað finnst þeim merkilegt við hann og hvað er skemmtilegast að gera þar? Á þessu stigi er ekkert skráð heldur einungis rætt saman um bæinn. Að því loknu er verkefnið kynnt, þ.e. að framundan sé að byggja bæ í skólastofunni en fyrst þurfi að fara í vettvangsferð til að skoða bæinn saman og í framhaldi af því farinn einn hringur um bæinn með strætó. 

Hvað skal byggja?

Þegar heim er komið setjast allir saman og ræða um það sem þeir sáu í ferðinni og nú er allt skráð á flettitöflu. Að því loknu þarf að ákveða hvaða byggingar eiga að vera í kubbabænum og getur tekið smá tíma að komast að samkomulagi um það. Þegar niðurstaða er komin í málið þarf að deila byggingum á börnin og yfirleitt eru þá tvö eða fleiri sem sameinast um hverja byggingu. 

Skipulag og verkaskipting

Nú er komið að byggingarframkvæmdum og þarf að byrja á því að skipuleggja svæðið sem byggt er á. Hvar eiga húsin að standa? Hvernig liggja
göturnar? Eru einhver opin svæði sem við byggjum ekki á eins og t.d. leikvöllur eða fólboltavöllur? Hvar er höfnin? o.s.frv. Hér þarf að gæta þess vel að umræðan njóti sín og að ákvarðanatakan sé sameiginleg.
Þar sem byggingarsvæðið leyfir ekki að heill bekkur byggi þar samtímis þarf hópurinn að skipta með sér verkum. Sumir byrja á því að byggja en aðrir fara í það að búa til fólk og farartæki og annað sem til þarf eins og umferðarmerki og skilti til að merkja byggingarnar. Staldra þarf við annað slagið til að taka stöðuna og ræða hvernig gengur með framkvæmdir og hvort eitthvað þufti að skoða nánar.

Fróðleikur um bæinn

Þegar byggingarvinnu og annarri framleiðslu er lokið (reyndar alltaf hægt að bæta einhverju við) og allt komið á sinn stað að minnsta kosti í bili upphefst vinna við að skilgreina samfélagið nánar. Teknar eru myndir af byggingum, fólkinu, heimilum þeirra og farartækjum, þær eru prentaðar út og börnin velja sér myndir til að skrifa um. Hér eru dæmi um spurningar sem börnin svara í ritunarverkefnum sínum (smellið á myndirnar til að stækka þær):

Húsin

 • Hvernig lítur húsið þitt út? 
  • Er þetta einbýlishús, raðhús, blokk … ?
  • Hvernig er það á litin?
  • Hvernig er þakið?
  • Er húsið með svölum?
  • o.s.frv. allt eftir því hvað húsið býður upp á …
 • Segðu frá fólkinu sem býr í húsinu.

Farartækin

 • Hvernig bíll er þetta?
 • Til hvers er hann notaður?
 • Hvernig lítur hann út?
 • Segðu frá eiganda bílsins. Hver er hann? Hvað gerir hann? Hvar býr hann? o.s.frv.

Fólkið í bænum

 •  Hver er þetta? Nafn og aldur …
 • Hvað gerir manneskjan?
 • Hvar býr hún?
 • Hvað finnst henni skemmtilegast að gera?

Kubbabyggingar

 • Hvaða bygging er þetta?
 • Hvað gerist inni í byggingunni?
 • Hvernig lítur hún út að innan? Hvað er inni í byggingunni?  Teikna mynd og útskýra…
 • Hverjir vinna þarna?

 

 

Áframhaldið …

Sú vinna sem hér er lýst spannar eina viku og þá eru byggingarnar teknar niður og kubbum skilað á kubbasvæðið. Það er hins vegar hægt að halda vinnunni áfram með því að prenta út ljósmyndir af öllum byggingunum út í A4 og festa á vegg líkt og gert er  í vinnu með söguramma. Þannig er kubbabærinn færður í nýtt form og hægt að vinna nánar úr öllum þeim hugmyndum sem kviknuðu meðan kubbabærinn var til staðar. Þessar hugmyndir er svo hægt að nýta til að láta eitthvað óvænt að gerast sem beinir vinnu barnanna í farveg sem kanna þarf nánar skv. aðalnámskrá. Það þarf bara alltaf að hafa það í huga að vinna sem leidd er áfram af hugmyndum barnanna fer gjarnan út á ófyrirséðar brautir en það þarf ekki að valda áhyggjum því hún helst jafnan vel innan ramma námskrár ef vel er að gáð!

Og í lokin …

Svona getur verið umhorfs í skólastofunni meðan vinna stendur sem hæst …

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS