Skip to content

Stigskipt þróun byggingaleiks

Börn fara í gegnum stigskipta þróun í byggingaferlinu þegar þau vinna með einingakubbana. Gildir þar einu máli hvort þau kynnast kubbunum tveggja ára eða sex ára, byggingaleikurinn þróast á sama hátt. Hann þróast hins vegar hraðar eftir því sem börnin eru eldri þegar þau kynnast kubbunum og er þá einstaklingsbundið hversu mikla áherslu þau leggja á hvert stig fyrir sig. 

Æfingin skapar meistarann

Endurteknar athafnir eru áberandi á hverju stigi og leiða þær börnin stöðugt áfram til frekari skilnings á möguleikum efniviðsins. Samtímis standa þau frammi fyrir ýmsum þrautum sem þau þurfa að leysa til að ná árangri og komast áfram á næsta stig. Það sem börnin læra á hverju stigi fyrir sig sameinast bygginarformum fyrri stiga og vinnubrögðin verða bæði flóknari og tæknilegri og tilgangurinn ákveðnari. Hér á máltækið „Æfingin skapar meistarann“ vel við og því þurfa börn gnægð tækifæra til að vinna með kubbana og þjálfa þannig hugarfærni sína og leikni í meðhöndlun þeirra. 

1. stig – Að kynnast kubbunum

 Börnin bera kubba á milli staða, stafla þeim óreglulega, nota mismunandi form og breytilegt rými. Þannig ráðskast þau með kubbana og kynnast þeim. Því eldri sem börnin eru þegar þau kynnast kubbunum þeim mun minna fer fyrir þessu stigi.

2. stig – Byggingarferlið hefst

 Hið raunverulega byggingarferli hefst. Börnin raða kubbum ýmist lárétt hlið við hlið eða hlaða þeim upp í lóðréttar byggingar. Endurtekning er mjög áberandi þar sem þau taka alltaf einn kubb í einu og leggja hann til. Endurtekningin leiðir til þess að munstur fara að sýna sig, raðir og turnar tengjast og börnin uppgötva veggi og gólf eftir því hvort þau byggja röð turna þar sem þau raða kubbunum upp á rönd hlið við hlið eða leggja kubbana flata hlið við hlið.

3. stig – Brúin

 Brúin felur í sér þá þraut að stilla tveimur kubbum upp samhliða og brúa bilið milli þeirra með þriðja kubbnum. Sú glíma að raða póstum þannig upp að bilið hæfi brúnni getur reynst erfið og þarf oft margar tilraunir áður en árangur næst. 

4. stig – Afmörkun svæða

Felur í sér þá þraut að raða kubbum þannig saman að þeir afmarki ákveðið svæði. Sem fyrr ræður endurtekningin ríkjum og verða þá til margs konar hyrningar. Heiti þeirra skiptir ekki máli á þessu stigi því börnin eru enn að kljást við efniviðinn og möguleika hans. 

5. stig – Samhverfa og jafnvægi

Börnin hafa nú kynnst eiginleikum kubbanna og möguleikum efniviðsins það vel að þau eru orðin fær um að gera tilraunir með þá. Mynstur og samhverfa bætast nú við tækni og byggingamynstrum fyrri stiga, þau nota fleiri gerðir kubba til að ná markmiðum sínum og ímyndunaraflið nýtur sín til fulls. Stöðugleiki bygginga grundvallast m.a. á skilningi þeirra á byggingaraðferðum þar sem þau takast á við burðarþol og jafnvægi en endurteknar tilraunir þeirra auka stöðugt færni þeirra þá því sviði.

6. stig – Heiti bygginga

Fram að þessu hafa börnin gefið byggingum sínum nafn en heitin eru oft óralangt frá því sem útlit þeirra gefur til kynna. Nú ákveða þau hins vegar oft fyrir fram hvað þau ætla að byggja og tengist það þá hlutverkaleiknum sem tekur við þegar byggingu er lokið.

7. stig – Hlutverkaleikur

Hlutverkaleikurinn verður algengari eftir því sem geta barna í kubbastarfinu eykst enda er efnið ekki lengur stjórnandi aðstæðna líkt og áður. Tjáningarþörfin verður áberandi, byggingarnar fara smám saman að standa fyrir eitthvað ákveðið og endurspegla reynslu barnanna. Þau byggja oft ein og sér en leikurinn sem fylgir grundvallast á innbyrðs samskiptum. Þau fara einnig að gera kröfur um aukahluti til að skilgreina nánar það sem þau eru að fást við.

Heimildir

Apelman, Maja og Johnson, Harriet M.1996. Stages of Block Building (Appendix 1). The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children.

Johnson, Harriet M.1996. The Art of Block Building. The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children.

No comments yet

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS