Skip to content

Stærðfræði

Hinir stærðfræðilegu eiginleikar einingakubbanna og innbyrðis tengsl þeirra gera þá að hentugu námsefni í stærðfræði þar sem börn fá fjölbreytt tækifæri til stærðfræðilegra pælinga og að nema stærðfræðileg hugtök á náttúrlegan hátt meðan á byggingaferlinu stendur. Í þeirri glímu takast þau á við ótal þrautir sem þau verða að leysa til að ná árangri. Endurtekningin og þrautseigjan sem er svo rík í þróun byggingaferlisins gerir það að verkum að börnin læra smám saman að beita skipulögðum vinnubrögðum og hugkvæmni við að leysa þær þrautir sem eiginleikar kubbanna setja þeim. 

Í kubbastarfinu læra börn um:

 • um eiginleika kubbanna – stærð, lögun, þyngd, þykkt, breidd og lengd
 • að greina á milli eiginleika kubbanna – flokkun og röðun út frá eiginleikum þegar byggt er og gengið frá í lok leiks
 • um innbyrðis tengsl kubbanna – hvað gengur upp og hvað ekki þegar skapa á eina samstæða heild úr kubbunum

 Kubbastarf eflir:

 • gagnhverfa hugsun – þegar börn átta sig á því að hugsa má bæði líkamlegar sem andlegar athafnir til baka að upphafspunktinum. Getur þú tekið bygginguna niður án þess að hún hrynji? Mælihvarði á gagnhverfan skilning, þ.e. gagnhverf hugsun sést ef börn taka kubbana í öfugri röð við það sem þau röðuðu þeim.
 • hugmyndir barna um varðveislu – þegar börn átta sig á því að hlutir haldast í grundvallaratriðum óbreyttir þó svo lögun þeirra eða uppröðun breytist.

Í kubbastarfi vinna börn m.a. með:

 • samanburð á fjölda – grundvallarhugtökin meira en, minna en, jafnt og.
 • fjöldahugtök – margir, fáir, fleiri en, færri en, jafnmargir.
 • talnaröðina – einn, tveir, þrír…
 • tengsl hluta og heildar – samsettar stærðir, hlutföll.
 • stærðargildi kubbanna – stærri en, minni en, jafnstór.
 • jafngildi stærðar – tveir eða fleiri kubbar geta verið ígildi eins kubbs og öfugt
 • jafngildi lengdar, t.d. þegar börn átta sig á því að tvær sams konar línur haldast jafnlangar þó þeim sé raðað á mismunandi hátt og að línur geta verið jafnlangar þó þær hafi mismunandi horn eða lögun.
 • jafngildi rúmmáls, t.d. að tveir fersterndingar jafngilda einum grunnkubbi og að það breytist ekkert þó svo annar þeirrra sé lagður ofan á hinn.
 • varðveislu svæðis – börn leita fyrirmynda úr umhverfinu þegar þau afmarka svæði í byggingum sínum og verða að gera varðveitt myndina í huga sér til að geta komið henni í áþreifanlegt form.
 • eiginleika tví- og þrívíðra forma – t.d. virka hliðarfletir kubba sem eru orðnir hluti af byggingum sem tvívíð form.
 • samanburð á flatarmyndum og þrívíðum formum – þegar börn raða kubb í hillu taka þau mið af flatarmynd sem sýnir þann hliðarflöt sem lýsir helst eiginleikum kubbsins
 • flatarmál – hvaða fletir falla vel saman…tryggja bestu undirstöðuna…eru bestir í þök/veggi?
 • mismunandi form – horn af mismunandi stærðargráðum verða til þegar börn afmarka svæði.
 • rúmfræðilegar færslur – hliðrun, speglun, snúningar
 • samhverfu og munstur – hluti af stigskiptri þróun byggingaferlisins – þökun og mynsturgerð fer gjarnan saman þar sem börnin nota fleiri en eina gerð kubba til að þekja fleti, lárétt eða lóðrétt. 
 • mismunandi sjónarhorn – vegna hinna þríviðu eiginleika kubbanna breytist útlit þeirra eftir því hvernig þeir snúa.
 • staðsetningu – Hvar eru kubbarnir miðað við…? Hvar er ég miðað við…?
 • fjarlægðir – byggingar stækka og minnka eftir því hvort börnin eru nálægt þeim eða í fjarlægð frá þeim.
 • lóðrétt/lárétt – kubbum er raðað lóðrétt eða lárétt
 • rými – kubbarnir taka ákveðið rími – byggingar taka mismikið rými – börnin vinna í ákveðnu rými og þurfa að gæta þess að reka sig ekki í byggingar – eykur líkamsvitund

Á leikskólaárum sínum, þegar kubbastarfið stendur sem hæst, kunna börnin ekki skil á þeim stærðfræðilegu hugtökum sem einkenna kubbana en þegar kemur að því að læra þau á formlegan hátt í grunnskólanum er skilningurinn fyrir hendi hafi þau fengið næg tækifæri til að þjálfa hugarfærni sína í kubbastarfinu. Einingakubbarnir eru opinn efniviður sem líkja má við námsbók án orða en það eru börnin sem „skrá“ í hana textann í sjálfu kubbastarfinu og ljá honum merkingu á þeim forsendum sem skilningur þeirra leyfir hverju sinni. Notkun tungumálsins blómstrar í kubbastarfinu þar sem börnin tala um byggingar sínar, útskýra hvernig þau fara að við að raða kubbum saman í samstæða heild, deila upplýsingum, réttum sem röngum og kynnast öðrum sjónarhornum en sínum eigin. 

Á þennan hátt vinna börnin að því að skýra hugsun sína um stærðfræðileg viðfangsefni og læra að nota tungumál stærðfræðinnar. Þau átta sig smám saman á tengslum milli þeirra stærðfræðilegu hugtaka sem þau fást við í kubbastarfinu þó svo þau hafi ekki enn náð að tengja þau við rétt orð og tákn sem lýsa þeim. En næg tækifæri til að vinna með einingakubbana skerpir skilning þeirra á hugtökunum og seinna á námsleiðinni þarf einungis að færa þeim orðin og táknin til að koma á framfæri hugmyndum sem þau hafa þegar öðlast skilning á í tilraunum sínum 

 Heimildir

Cuffaro, Harriet K. 1991. A view of Materials as the Texts of Early Childhood Curriculum. Issues in Early Chidhood Curriculum. Ritstj. Spodek, B. & Sarach, O.N. Vol.2:64-85. New York. Teachers College Press.

Cuffaro, Harriet. 1995. Block Building: Opportunities for Learning. Child Care. Information Exchange. 103,5:36-38

Leeb-Lundberg, Kristina.1996. The Block Builder Mathematician. The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children.

Moffitt, Mary W. 1996. Children Learn about Science through Block Building. The Block Book. Ritstj. Hirsch, E. Endurskoðuð útgáfa. Washington, D.C. National Association for the Education of Young Children.

Leave a Reply

Note: XHTML is allowed. Your email address will never be published.

Subscribe to this comment feed via RSS