Skip to content
Nov 5 11

Flugvélin

by Ásta Egilsdottir

Við eigum nokkra spýtukubba og fjalarbúta á pallinum hjá okkur og hafa Jóel Orri og Veigar Lár leikið sér svolítið með þá. Þeir þurfa enn sem komið er aðstoð við að byggja úr þeim þar sem þeir eru enn of þungir fyrir þá en þeir geta þó fært þá úr stað sjálfir, a.m.k. þá léttustu. Hér má sjá fjórar myndir af Jóel Orra baksa með kubbana. Á fyrstu tveimur myndunum sést hvernig hann hrúgar þeim saman og horfir síðan stoltur á verkið á þeirri þriðju. Á fjórðu myndinni er hann í flugvél sem amma hjálpaði honum að byggja.

Nov 5 11

Litli turnmeistarinn

by Ásta Egilsdottir

Veigar Lár byggir hér turn á sófaborðinu heima hjá sér. Takið eftir að neðsti kassinn stendur örlitið út af borðbrúninni. Mamma hans rétt náði að smella af áður en turninn féll.

Oct 20 11

Litlu kubbameistararnir

by Ásta Egilsdottir

Í sumar keypti ég mini-einingakubba í Barnasmiðjunni til að eiga hér heima handa ömmu- og afastrákunum okkar. Þeir heita Jóel Orri sem er tæpra fjögra ára og Veigar Lár sem er tveggja ára.

Strákarnir koma reglulega í heimsókn og hafa að sjálfsögðu verið undir smásjá ömmunnar þegar þeir vinna með kubbana. Myndaalbúmið er þegar orðið fullt af myndum af þeim í kubbaleik.

Það hefur verið gaman að sjá þá bræður fara ólíkar leiðir til að byrja með og spennandi að fylgjast með því hvort og þá hvenær leiðir þeirra mætast á kubbavellinum!


Hér fá bræðurnir kubbana í fyrsta sinn. Veigar Lár byggir strax turn en Jóel Orri hrúgar hann kubbum óreglulega. Þeir héldu sig við þetta mynstur í annað sinn sem þeir fengu kubbana í hendur.

Veigar Lár æfir sig áfram í turnbyggingum. Það er gaman að fylgjast með því þegar hann leggur kubba eins og þrístrendinginn efst þannig að ekki er hægt að stafla ofan á hann. Þá skiptir hann kubbinum út fyrir annan betri en hefur ekki enn snúið strendingnum þannig að stétt hlið snúi upp.

Byggingar Jóels Orra hafa tekið breytingum en hann hefur verið meira í kubbunum en sá yngri. Það teygðist smám saman úr hrúgunni og lengjur mynduðust.

Nú er brúin komin, hann byggir líka turna eins og Veigar og afmarkar svæði en þá byggir hann gjarnan utan um bílana sína. Byggingarnar hafa verið frekar óreglulegar en reglan færist smán saman yfir og innan um og saman við glittir í samhverfu … nema að amman sé svolítið óþolinmóð!!!